Yfir 100 þúsund órangútanar felldir

Órangútanar eru í mikilli útrýmingarhættu.
Órangútanar eru í mikilli útrýmingarhættu. AFP

Meira en 100 þúsund órangútanar hafa verið drepnir á eyjunni Borneo frá árinu 1999. Dýrategundin er í mikilli útrýmingarhættu.

Í nýrri rannsókn um afkomu stofnsins, sem byggð er á gögnum sextán ár aftur í tímann, segir að hratt hafi þrengt að búsvæðum órangútana með skógarhöggi. Skógarnir séu ruddir til að til að framleiða pálmaolíu, vegna námugraftrar og pappírsframleiðslu. 

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er mörgum dýranna hreinlega slátrað, að því er aðalhöfundur hennar, Maria Voigt, segir. Hún segir að dýrin séu skotmörk veiðimanna og að umfang drápanna hafi ekki áður verið ljóst. Vísindamennirnir segja að þegar órangútanar komi að plantekrunum séu þeir miskunnarlaust drepnir. „Þetta er hræðilegt og ónauðsynlegt. Órangútanar éta kannski ávexti bændanna en þeir eru ekki hættulegir,“ segir Serge Wich sem tók þátt í rannsókninni.

Sífellt meira land brotið til ræktunar

Hann segir að stjórnvöld í Malasíu og Indónesíu verði að taka málið fastari tökum. Rannsóknin sýnir enn fremur að sífellt meira land er brotið til ræktunar á hraða sem ekki geti talist sjálfbær. Er það mat vísindamannanna að skógareyðing gæti orðið til þess að fækka órangútönum um 45 þúsund til viðbótar á næstu 35 árum.

Pálmaolía er notuð í margar tegundir matvæla. Emma Keller hjá dýraverndunarsamtökunum WWF segir að neytendur gætu beitt fyrirtæki þrýstingi til að hvetja til sjálfbærrar framleiðslu á olíunni. 

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert