Yfir 200 þúsund fórnarlömb árásar

AFP

Fórnarlömb alþjóðlegu tölvuárásarinnar eru orðin rúmlega tvö hundruð þúsund talsins í yfir 150 löndum, segir forstjóri Europol, Rob Wainwright. „Við höfum aldrei séð neitt í líkingu við þetta,“ segir hann. Wainwright er í viðtali við ITV-sjónvarpsstöðina í Bretlandi.

Meðal fórnarlamba árásarinnar eru stórfyrirtæki en helst eru það fyrirtæki sem urðu fyrir árás tölvuþrjótanna. Wainwright segir að fáir hafi farið að kröfum tölvuþrjótanna og greitt fyrir gögnin en varaði við því að staðan væri að versna. Hann óttast að áhrif árásanna eigi eftir að stigmagnast þegar fólk mætir til vinnu í fyrramálið og kveikir á tölvum sínum. 

„Við erum að vinna í um 200 alþjóðlegum aðgerðum gegn tölvuglæpum á hverju ári en við höfum aldrei séð neitt í líkinu við þetta,“ segir Wainwright. 

Hann segist ekki vita tilganginn með árásunum en ransomware-árásir eru yfirleitt framdar í saknæmum tilgangi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert