Skiptar skoðanir frambjóðenda á stækkun í Straumsvík

Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is
Efstu menn á listum tveggja flokka af þeim fjórum sem bjóða fram í Hafnarfirði hafa tekið ákveðna afstöðu til þess hvort álver Alcan í Straumsvík fái að stækka. Framsóknarflokkur segist styðja stækkun, vinstri græn eru á móti, en Samfylking og Sjálfstæðisflokkur segja gögn skorta til að taka afstöðu.

"Það sem ræður afstöðu okkar er að málið er komið mjög langt," segir Sigurður Eyþórsson, efsti maður á lista Framsóknarflokksins. "Við styðjum að Alcan fái að stækka taki fyrirtækið þá ákvörðun með þeim skilyrðum sem sett eru í starfsleyfi."

Haraldur Þór Ólason, Sjálfstæðisflokki, segir lokaákvörðun ekki tekna fyrr en Alcan biðji um leyfi til stækkunar. "Það veltur á umhverfisþáttum, auk þeirra fjárhagslegu, hver afstaða mín verður."

Öll gögn og upplýsingar verða að liggja fyrir áður en hægt er að taka endanlega afstöðu til stækkunaráforma, segir Lúðvík Geirsson, efsti maður Samfylkingar. "Hafnarfjarðarbær hefur sett fram skýr skilyrði hvað þessi atriði snertir en ennþá er deiliskipulag ófrágengið milli bæjarins og Alcan. Jafnframt hefur Alcan ekki ennþá tekið formlega ákvörðun um stækkun."

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, sem skipar efsta sætið á lista VG, segir stækkun keypta dýru verði. "Ef álverinu í Straumsvík verður leyft að stækka verður það fjórða stærsta álver í Evrópu, gefur frá sér 20 tonn af brennisteini út í andrúmsloftið næstu 50-60 ár og þarf 18 ferkílómetra af þynningarsvæði en allt byggt land Hafnarfjarðar í dag er rúmir 12 ferkílómetrar. Allt þetta fyrir um 4% af heildartekjum bæjarins ef af verður."

Nánar er rætt við frambjóðendurna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert