Meirihlutinn á Akureyri fallinn samkvæmt könnun

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Akureyri er fallinn samkvæmt skoðanakönnun Gallup fyrir Ríkisútvarpið. Bæði Samfylking og Vinstrihreyfingin-grænt framboð bæta við sig miklu fylgi samkvæmt könnuninni.

Sjálfstæðisflokkurinn fær 30% og þrjá bæjarfulltrúa samkvæmt könnuninni en fékk 36% og fjóra fulltrúa í kosningunum árið 2002. Framsóknarflokkurinn fær nú 15% og 2 bæjarfulltrúa en fékk 24% og 3 menn í síðustu kosningum.

Fylgi Samfylkingarinnar mælist 24% en flokkurinn fékk 14% í síðustu kosningum. Samkvæmt þessu fær flokkurinn 3 bæjarfulltrúa og bætir við sig einum. Fylgi VG mælist nú 18% og tvöfaldast frá kosningunum og flokkurinn fær 2 bæjarfulltrúa samkvæmt þessu. L-listinn fær 9% samkvæmt könnuninni og 1 bæjarfulltrúa en fékk 18% og 2 menn í kosningunum. Framfylkingarflokkurinn fær 4,2% samkvæmt könnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert