Framsóknarflokkur tapar á Akranesi samkvæmt könnun

Framsóknarflokkurinn tapar verulegu fylgi á Akranesi samkvæmt skoðanakönnun, sem Fréttablaðið birtir í dag. Fylgi flokksins mælist 12,7% nú en var 26% í síðustu bæjarstjórnakosningum fyrir fjórum árum. Fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs eykst en fylgi Samfylkingarinnar minnkar.

Samkvæmt könnuninni fengi Sjálfstæðisflokkurinn 41,7% fylgi og fjóra bæjarfulltrúa af 9. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 35% og fjóra menn. Samfylkingin fær 28,1% og þrjá menn samkvæmt könnuninni en fékk 32,4% og þrjá menn í kosningunum. Framsóknarflokkurinn fær einn mann samkvæmt könnuninni en fékk 2 bæjarfulltrúa í kosningunum. Vinstrihreyfingin-grænt framboð fær 12,7% í könnuninni og einn bæjarfulltrúa en fékk 6,7% og engan mann í kosningunum. Frjálslyndi flokkurinn mælist með 4,5% fylgi í könnun Fréttablaðsins en hann bauð ekki fram í síðustu kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert