Listi fólksins býður fram í þriðja sinn á Akureyri

L-listinn, Listi fólksins mun bjóða fram við bæjarstjórnarkosningar á Akureyri á komandi vori og er þetta í þriðja sinn sem listinn býður fram. Nú eru tveir fulltrúar listans í bæjarstjórn, en L-listafólk stefnir hærra nú og segir þriðja sætið baráttusætið auk þess sem listinn vill komast í meirihlutasamstarf í bæjarstjórn svo vinna megi málum hans brautargengi.

Oddur Helgi Halldórsson mun skipa fyrsta sæti listans nú sem hinn fyrri skipti sem boðið hefur verið fram. Hann hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 1994, kom þá inn fyrir Framsóknarflokk, en sagði skilið við félaga sína þar og bauð sig fram í nafni L-listans. Komst við kosningarnar 1998 einn manna inn af þeim lista, en við kosningarnar 2002 náði listinn tveimur mönnum inn í bæjarstjórn.

„Við teljum að það sé þörf fyrir okkur, að vera okkar í bæjarstjórn hafi verið til góðs og því viljum við áfram bjóða bæjarbúum upp á þennan valkost,“ segir Oddur Helgi en hann tilkynnti um framboðið á fundi í dag. „Við finnum mikinn meðbyr úti í bæ, meiri en fyrir fjórum árum og enn meiri en fyrir átta árum. Þess vegna ætlum við að hella okkur í slaginn í þriðja sinn og erum bara bjartsýn.“ Framboðslistinn verður kynntur 18. mars, en sem fyrr segir mun Oddur Helgi skipa fyrsta sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert