Víðir varar við auknu aðgengi

Víðir varar við auknu aðgengi ferðamanna að eldgosinu.
Víðir varar við auknu aðgengi ferðamanna að eldgosinu. mbl.is/Óttar

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, varar við þeirri hugmynd að opna fyrir aðgengi ferðamanna að gosstöðvum í Sundhnúkagígaröðinni. Hann segir að enginn ætti að vera á skilgreindu hættusvæði Veðurstofu Íslands og biðlar til þeirra sem séu að skoða aukið aðgengi að gosstöðvunum að skoða málið vel og vandlega með hliðsjón af þeirri hættu sem fylgir. 

„Varðandi það að gera aðgengi að eldgosinu sem er yfirstandandi núna, það finnst okkur ekkert sérstaklega skynsamlegt,“ segir Víðir.

Greint var frá því síðastliðinn föstudag að búið væri að koma á laggirnar starfshópi sem ætti að skoða aukið aðgengi ferðamanna að eldgosinu í Sundhnúkagígsröð.

Svæði sem enginn á að vera á 

Víðir bendir á að almannavarnir eiga ekki aðild að starfshópnum, en aftur á móti séu þau í sambandi við lögregluna á Suðurnesjum sem á fulltrúa í hópnum. Hann segir að starfshópurinn sé að vinna að tveimur verkefnum. Annars vegar er hann að skoða ferðamannaþjónustan almennt á Reykjanesskaganum og áframhaldandi starfsemi hennar samhliða umbrotum og jarðhræringum á svæðinu.

Hins vegar er hópurinn að skoða hvenær og hvernig ætti að ráðast í aðgerðir til þess að gera aðgengi að gosstöðvunum betra. Þá með það í huga að greiða leið ferðamanna að gosinu.

Frá eldgosinu við Sundhnúkagíga.
Frá eldgosinu við Sundhnúkagíga. ljósmynd/Hörður Kristleifsson

„Varðandi fyrri hlutann þá held ég að það sé mjög skynsamlegt að skoða það,“ segir Víðir og tekur starfsemi Bláa lónsins sem dæmi. Fyrirtækið hefur þurft að aðlagast miðað við stöðu jarðhræringa. Hann segir það vera langtímaverkefni starfhópsins.

„Varðandi það að gera aðgengi að eldgosinu sem er yfirstandandi núna finnst okkur ekkert sérstaklega skynsamlegt,“ segir hann bendir á hættumatskort Veðurstofu Íslands.

„Það er svæði sem við teljum að enginn eigi að vera á.“

Hættumatskort Veðurstofu Íslands. Gildir frá 19. apríl 2024 til 30. …
Hættumatskort Veðurstofu Íslands. Gildir frá 19. apríl 2024 til 30. apríl 2024 að öllu óbreyttu. Kort/Veðurstofa Íslands

Kostnaður nam tæpum 500 milljónum árið 2021

„Aftur á móti erum við núna með yfirvofandi breytingar í atburðarrás [eldgossins]. Það streymir enn kvika undir Svartsengi, það er landris og kvikusöfnun er að nálgast þau mörk sem hafa kallað fram kvikuhlaup,“ segir hann og bendir á að viðvörunartími áður en gos hefst sé orðinn svo gott sem enginn.

„Hætturnar eru mjög miklar tengdar þessu. Þetta þarf að hugsa mjög vel og fara vel yfir hættumatið áður en menn fara að grípa til þessara aðgerða.“

„Svo er aftur á móti sá flötur að ef menn ætla að nálgast þetta eins og gosin í Fagradalsfjalli, Litla-Hrút og Geldingadölum, vera með göngustíga og gæslu, þá þarf að horfa til kostnaðarþáttarins í því og hver ætli að greiða þann kostnað.“

Víðir segir að kostnaður við gæslu og vegagerð við gosið árið 2021 hafi verið tæpar 500 milljónir króna.

„Ef einhver treysti sér í að vera með starfsemi á svæðinu og að fjármagna það með einhverjum hætti þá verður auðvitað að skoða það. Varnarorð okkar eru samt mjög skýr.“

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Einn versti staðurinn

„Menn verða að gera sér grein fyrir því að þegar er opnað inn á svona svæði og byrjað að markaðasetja þá fáum við alls konar fólk,“ segir hann og dregur til samanburðar hinn almenna ferðamann og vant útivistarfólk sem þekkir aðstæður vel.

Hann segir verkefni tengd Fagradalsfjallssvæði hafa hlaupið á hundruðum.

„Ef það á að vera einhvers konar starfsemi á svona varasömu svæði þá þarf viðbúnaðurinn að vera samræmi við þá hættu sem menn standa frammi fyrir,“ segir hann og heldur áfram:

„Það er bara ekki nóg að búa til einhvern göngustíg og einhver bílastæði og segja svo bara  gjörið þið svo vel.“

Dagbjartur Brynjarsson, sér­fræðing­ur í ör­ygg­is­mál­um hjá Ferðamála­stofu.
Dagbjartur Brynjarsson, sér­fræðing­ur í ör­ygg­is­mál­um hjá Ferðamála­stofu. Ljósmynd/Aðsend

Dag­bjart­ur Brynj­ars­son, sér­fræðing­ur í ör­ygg­is­mál­um hjá Ferðamála­stofu, sem leiðir starfshópinn, sagði í viðtali við mbl.is síðastliðinn föstudag að þau álitu besta útsýnisstaðinn vera út frá Grindavíkurvegi á svipuðum stað og Svartsengi er á. Víðir segir það vera einn versta staðinn.

„Við horfðum á það að það væri versti staðurinn. Þá ertu bæði að labba upp á móti svæði þar sem hraun renni að og að labba yfir þar sem kvikugangurinn liggur undir. Við vitum ekkert hver nákvæmnin er í opnuninni. Hún getur hlaupið á hundruðum metrum og jafnvel kílómetrum,“ segir hann.

„Menn þurfa að horfa á þetta mjög vel og það eru svo margir þættir í þessu,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert