Mánuður frá gosi: Lengsta gosið frá 2021

Eldgosið nú hefur staðið lengst allra eldgosanna á Sundhnúkagígaröðinni í …
Eldgosið nú hefur staðið lengst allra eldgosanna á Sundhnúkagígaröðinni í þessari hrinu eldgosa og næstlengst þeirra gosa sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðan 2021. Einungis fyrsta eldgosið í Fagradalsfjalli sem hófst í mars 2021 er lengra að sögn Veðurstofunnar. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Í dag er liðinn einn mánuður frá upphafi eldgossins sem nú er í gangi á Sundhnúkagígaröðinni. Eldgosið, sem hófst að kvöldi 16. mars, er það fjórða frá því að kvikusöfnun hófst undir Svartsengi í lok október 2023.

Eldgosið nú hefur staðið lengst allra eldgosanna á Sundhnúkagígaröðinni í þessari hrinu eldgosa og næstlengst þeirra gosa sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðan 2021.

Þetta kemur fram í nýrri færslu á vef Veðurstofu Íslands. 

Stuttur fyrirvari

Rifjað er upp, að fyrirvari gossins hafi verið stuttur, en smáskjálftahrina hófst um kl. 19:30 og ákafi hennar jókst um kl. 19.40 og GPS-mælar sýndu í kjölfarið aflögunarmerki sem benti til þess að kvikuhlaup væri hafið. Gossprungan sem opnaðist kl. 20.23 var tæplega 3 km löng og náði frá Stóra-Skógfelli að Sundhnúk.    

„Í upphafi gossins flæddi hraun mestmegnis til suðurs og suðausturs, meðfram varnargörðum í átt að Suðurstrandarvegi, og til norðvesturs í átt að Grindavíkurvegi. Um það bil fjórum klukkustundum eftir að gos hófst rann hraun yfir Grindavíkurveg skammt norðan við Svartsengi. Hraði hrauntungunnar, sem fór til suðurs meðfram varnargörðum, eins og hann var metinn úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar var um 1 km á klst,“ segir í tilkynningunni. 

Aðeins gosið í Fagradalsfjalli staðið lengur

Þá segir, að eldgosið nú hafi staðið lengst allra eldgosanna á Sundhnúkagígaröðinni í þessari hrinu eldgosa og næstlengst þeirra gosa sem hafi orðið á Reykjanesskaga síðan 2021.

„Einungis fyrsta eldgosið í Fagradalsfjalli sem hófst í mars 2021 er lengra, en það stóð yfir í um 6 mánuði. Eldgosið Meradölum í ágúst 2022 yfir í 18 daga, en gosið við Litla-Hrút í júlí 2023 í 26 daga. Fyrri eldgosin þrjú á Sundhnúkagígaröðinni voru skammlíf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert