Ekki einsdæmi að vitni séu ónafngreind

Vitni sem mæta fyrir dóm þurfa jafnan að gefa upp …
Vitni sem mæta fyrir dóm þurfa jafnan að gefa upp nafn, kennitölu og heimilisfang. Þó eru undantekningar þar á, líkt og með lögreglumenn og stafsmenn barnaverndar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Við aðalmeðferð í hryðjuverkamálinu í gær vakti nokkra athygli að fulltrúi frá Europol, sem bar vitni í málinu, hafi ekki gefið upp nafn sitt fyrir dómi af öryggisástæðum. Alla jafna þurfa vitni að gefa upp fullt nafn, kennitölu og heimilisfang þegar þau mæta fyrir dóm. Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dómstjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur, segir þetta þó ekki einsdæmi og að vanalega sé gengið á eftir því með öðrum hætti að fólk auðkenni sig fyrir dóminn.

Fulltrúinn sem kaus að gefa ekki upp nafn sitt í gær er deildarstjóri deildar innan Europol sem rannsakar öfga-hægrihryðjuverkastarfsemi, en hann hefur verið sérfræðingur á  því sviði frá árinu 2018. Fær deildin yfir 100 mál á ári inn á sitt borð.

Í málinu liggja fyrir tvær skýrslur Europol sem íslenska lögreglan studdist við, en í þeim er farið yfir sam­skipti sak­born­ing­anna og hug­renn­ing­ar þeirra og áætlana­gerð í und­ir­bún­ingi meintra hryðju­verka.

Niðurstaða skýrslna Europol er að ís­lenska lög­regl­an hafi 100% ör­ugg­lega komið í veg fyr­ir hryðju­verk miðað við þau sönn­un­ar­gögn sem Europol hafði und­ir hönd­um. Full­trú­inn sagðist standa al­gjör­lega við þá niður­stöðu enn þann dag í dag.

Í loka­köfl­um skýrsln­anna er getið um niður­stöður og álykt­an­ir og sagði full­trú­inn að álykt­an­ir væru ráð til ís­lensku lög­regl­unn­ar um hvað þyrfti að rann­saka frek­ar. Álykt­an­irn­ar sagði hann vera byggðar á viðamik­illi reynslu deild­ar­inn­ar.

Ingibjörg segir í samtali við mbl.is að almenna reglan sé að vitni auðkenni sig með nafni, kennitölu og heimilisfangi þegar þau mæti fyrir dóm. Hins vegar hafi af öryggisástæðum tíðkast að t.d. lögreglumenn og starfsmenn barnaverndar gefi ekki upp nöfn við þinghaldið sjálft. Bendir Ingibjörg á að lögreglumenn gefi oft upp lögreglunúmer sitt, en að með starfsmenn barnaverndar sé annað hvort þekkt hverjir þeir séu af dómstólum, eða að gengið sé eftir því með öðrum hætti að fólk auðkenni sig.

Segir hún að þó ekki sé upplýst í þinghaldi um nafn viðkomandi og þar með komi það ekki fram á upptöku málsins, þá sé nafnið skráð í svokallaða þingbók.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert