Söfnuðu 3,5 milljónum fyrir Kvennaathvarfið

Nýkjörin stjórn Samtaka um Kvennaathvarf. Frá vinstri: Esther Hallsdóttir (formaður), …
Nýkjörin stjórn Samtaka um Kvennaathvarf. Frá vinstri: Esther Hallsdóttir (formaður), Ásta Magnúsdóttir, Joanna Marcinkowska (varaformaður), Helga Vala Helgadóttir, Árni Matthíasson, Ragna Guðbrandsdóttir. Á myndina vantar Öglu Eir Vilhjálmsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Aðalfundur Samtaka um kvennaathvarf og Sjálfseignarstofnunar Kvennaathvarfsins var haldinn þann 23. apríl síðastliðinn. Þar var nú stjórn félagsins kjörin og Sigríður Marta Harðardóttir heiðruð fyrir störf sín í þágu athvarfsins. 

Sigríður Marta setti á laggirnar verslunina Elley árið 2023 sem selur notaðar vörur og fatnað. Verslunin er rekin af sjálfboðaliðum og allur ágóði sölunnar rennur til Kvennaathvarfsins. 

Framkvæmdir við nýtt Kvennaathvarf að hefjast

Vinna við byggingu nýs Kvennaathvarfs stendur nú yfir, en framkvæmdir munu hefjast á komandi vikum. Safnað hefur verið fyrir byggingunni undanfarin ár og munu samtökin halda áfram að safna í byggingasjóð á komandi ári, er kemur fram í tilkynningu.

„Alls dvöldu 122 konur og 77 börn í Kvennaathvarfinu í Reykjavík á árinu 2023 og voru tveir þriðju þeirra að koma í fyrsta sinn í dvöl. 9 konur og 6 börn dvöldu í athvarfinu á Akureyri, en athvarfið á Akureyri hóf störf árið 2020. Þá sóttu 413 konur sem ekki dvöldu í athvarfinu viðtalsþjónustu sem Samtökin bjóða upp á endurgjaldlaust fyrir konur sem verða fyrir ofbeldi eða aðra sem vilja leita ráðgjafar vegna ofbeldis, samtals 1023 viðtöl. “

 Stærsti einstaki styrkur til athvarfsins

Eins og áður hefur komið fram var Sigríður Marta stofnandi Elley verslunarinnar heiðruð fyrir störf sín í þágu athvarfsins

Alls söfnuðust tæpar 3,5 milljónir króna með rekstri Elley árið 2023 og er það stærsti einstaki styrkur til athvarfsins á árinu. Þá styrktu Vinir athvarfsins starfsemina um tæpar 95 milljónir á árinu með mánaðarlegum gjöfum. Stuðningur þeirra er ómetanlegur starfi samtakanna segir í tilkynningunni. 

Ný stjórn kjörin

Breytingar urðu á stjórn Samtaka um Kvennaathvarfs á aðalfundinum, en nýjar í stjórn voru kjörnar Helga Vala Helgadóttir, Agla Eir Vilhjálmsdóttir, Ragna Guðbrandsdóttir og Ásta Magnúsdóttir. Fyrir voru Árni Matthíasson, Joanna Marcinkowska og Esther Hallsdóttir, en úr stjórn gengu Hulda Ragnheiður Árnadóttir, fyrrum formaður samtakanna, Brynja Hjálmtýsdóttir, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir og Katrín G. Alfreðsdóttir og voru þeim þökkuð góð störf í þágu félagsins.

Esther Hallsdóttir var kjörin nýr formaður Samtaka um kvennaathvarf á fyrsta fundi stjórnar og Joanna Marcinkowska varaformaður.

Í stjórn Sjálfseignastofnunarinnar sem heldur utan um fasteign athvarfsins voru kjörnar Sigríður Elín Sigfúsdóttir, Guðrún Ingvarsdóttir, Sabine Leskopf og Þórdís Guðmundsdóttir en Esther verður einnig formaður hennar.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, fráfarandi formaður, heiðrar Sigríði Mörtu Harðardóttur sem …
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, fráfarandi formaður, heiðrar Sigríði Mörtu Harðardóttur sem stendur fyrir versluninni Elley. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert