Matsatriði hvort fleiri eigi rétt á auknum frest

Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri landskjörstjórnar segir álitamál hvort fleiri eigi að …
Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri landskjörstjórnar segir álitamál hvort fleiri eigi að fá frest. Samsett mynd

Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri landskjörstjórnar, segir úrskurð úrskurðarnefndar kosningamála, um kæru Viktors Traustasonar á gildi framboðs hans til forsetakjörs, fyrst og fremst leiða í ljós að kerfið og leikreglurnar virki. 

Það sé mjög skýrt í úrskurðinum að gerð sér krafa um að meðmælendur greini frá heimilisfangi sínu til þess að hægt sé að ganga úr skugga um það úr hvaða landsfjórðungi meðmælendur eru og þar með fjölda meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi. 

Úrskurðurinn mjög skýr um að tilgreina skuli heimilisföng

Eins og mbl.is greindi frá í gær hafði Viktor einungis 69 gilda meðmælendur, en alls skilaði hann um 900 undirskriftum. Flestar undirskriftir voru þó ógildar sökum þess að upp á vantaði heim­il­is­föng meðmæl­enda og kenni­töl­ur sumra þeirra líkt og regl­ur kveða á um og árétt er í úrskurðinum. 

Framboð Viktors hefur verið metið gilt eftir frest.
Framboð Viktors hefur verið metið gilt eftir frest. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Úrskurðurinn er mjög skýr um það meðmælendur sem tilgreina ekki lögheimili teljast ekki gildir meðmælendur og úrskurðurinn staðfestir það,“ segir Ástríður en Viktor taldi að samkvæmt stjórnarskrá þyrfti hann einungis nafn og kennitölu meðmælenda. 

Úrskurðurinn kvað þó á um að Viktor skyldi fá aukafrest til þess að safna meðmælum til klukkan 15 í dag og skilaði hann þeim til Landskjörstjórnar fimm klukkustundum áður en fresturinn rann út. Landskjörstjórn kom síðan saman klukkan 16 í dag mat framboð hans gilt. 

Telur þörf á að skýra betur kosningalögin

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar segir að „þótt ákvæði kosningalaga séu ekki fyllilega skýr um það hvort og þá að hvaða leyti 44. gr. laganna, sem fjallar um galla á framboðslistum, geti gilt um forsetakjör telji nefndin að túlka verði vafa um meðferð meðmæla að þessu leiti kæranda í hag“. 

Spurð hvort landskjörstjórn sé sammála úrskurðarnefndinni um að ákvæðið sé ekki nógu skýrt svarar Ástríður því til að í ljósi niðurstöðu nefndarinnar telji landskjörstjórn að ákvæðið megi vera skýrara.

Vísar hún til þess að í 50. grein kosningalaga sé fjallað um framboð til forseta. Þar sé síðan vísað til kaflans um framboð til Alþingis og sveitarstjórnarkosninga, sem fjallar um kröfur og meðferð meðmælendalistana. Segir hún að landskjörstjórn hafi litið svo á að umrædd vísun, í 50. grein, hafi einungis verið til þess hluta kaflans sem fjallar um meðmæli. Það hafi þannig ekki verið nægilega skýrt hvort 44. grein, sem fjallar um frest vegna galla á framboðslistum, ætti við um galla á meðmælendalistum í forsetakjöri.

„Nefndin lýtur svo á að þetta beri að túlka kæranda í hag og við hlítum því auðvitað, en ég tel að það þurfi að skoða betur þennan kafla laganna. Líka með tilliti til fresta og þess háttar,“ segir Ástríður. 

Kosningalögin samsteypa fjögurra laga 

„Bæði hvað varðar fresta til að bæta úr en líka fresta fyrir úrskurðarnefndina. Það er talað um tuttugu klukkustunda kærufrest en svo er í raun ekkert ákvæði um það hversu langan tíma úrskurðarnefndin hefur til að úrskurða í málinu,“ segir Ástríður og bætir við: 

„En á öðrum stað segir að það eigi að auglýsa forsetakosningar eigi síðar en 30 dögum fyrir, sem er í dag. Þannig að þar er í rauninni búið að setja ákveðinn frest á úrskurðarnefndina en það þyrfti í rauninni kannski að vera skýrara.“

Þennan óskýrleika í lögunum má að öllum líkindum skýra af því að um er að ræða ný lög sem sett voru saman úr lögum um framboð og kjör forseta Íslands, lögum um kosningar til sveitarstjórna, lögum um kosningar til Alþingis og lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. 

„Það þarf kannski að skoða þau [kosningalögin] betur með tilliti til fyrirkomulagsins og skýra þessa hluti alla,“ segir Ástríður. 

Túlkunaratriði hvort aðrir hefðu átt að fá aukinn frest

Eins og fjallað hefur verið um var annað framboð metið ógilt af landskjörstjórn á mánudag þegar tilkynnt var um þá sem yrðu í framboði til embættis forseta Íslands. Var það vegna þess að einungis níu meðmælendur fylgdu framboðinu, í engu tilfelli getið um lögheimili og í sumum tilfellum ekki um kennitölu eins og ófrá­víkj­an­leg skil­yrði eru um í lög­um. 

Spurð hvort það mætti túlka úrskurðinn sem svo að þessi frambjóðandi ætti jafnframt að fá aukinn frest til að ná tilskildum meðmælafjölda svarar Ástríður því til að það sé túlkunar atriði sem best væri að fá úr skorið hjá úrskurðarnefndinni. 

Til útskýringar undirstrikar hún það sem fram kemur í úrskurðinum um þessa heimild til að bæta úr göllum en þar segir. 

„Sú hugsun liggi þar að baki að gefa frambjóðendum, sem hafi mátt ætla að hafi náð nægilegum fjölda meðmælenda, sem svo reynist ekki vera vegna ástæðna sem þeim gátu ekki verið ljósar, kost á að bæta úr.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert