Segir Stöð 2 skilja út undan: Hvetur til sniðgöngu

Viktor Traustason.
Viktor Traustason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stöð 2 meinar helmingi forsetaframbjóðenda frá kappræðum sem stöðin hyggst halda í kvöld, að sögn Viktors Traustasonar frambjóðanda sem hvetur kjósendur til að sniðganga kappræðurnar. Hann ætlar sjálfur að svara spurningum í beinni á Instagram.

„Í kvöld kl 18:55 mun Stöð 2 halda kappræður í opinni dagskrá þar sem helmingi frambjóðenda er meinaður aðgangur að jafnri umfjöllun,“ skrifar Viktor á Facebook.

Hann kveður ákvörðunartökuna byggða á ófaglegri túlkun niðurstaðna ólíkra skoðanakannanna yfir langt tímabil. Skoðanakannanirnar byggi á mistraustum tölfræðilegum grunni varðandi hvern landsmenn vilja helst í forsetaembættið.

„Í kvöld mun ég taka óbeinan þátt í kappræðunum með því að svara sömu spurningum í rauntíma á mínum samfélagsmiðlum,“ bætir Viktor við og hlekkjar Instagram-síðu sína við færsluna.

Hann skorar á þá frambjóðendur sem fengu boð í kappræður Stöðvar 2 að sniðganga þær, eða benda á „ólýðræðislegu“ vinnubrögð stöðvarinnar í beinni útsendingu í kvöld ásamt því að vísa fólki á samfélagsmiðla okkar hinna.

„Ég hvet alla frambjóðendur að taka þátt með mér í kvöld á samfélagsmiðlum,“ skrifar hann að síðustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert