Ef og sé og mundi – átján rófur á einum hundi

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Hjálmar Sveinsson og Dagur B. Eggertsson ræddu …
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Hjálmar Sveinsson og Dagur B. Eggertsson ræddu um borgarlínu og uppbyggingu Keldnalands í dag. Samsett mynd/Ágúst Ólíver/Eggert/Árni Sæberg

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, spurði í umræðu um nýja byggð í Keldnalandi hvort uppbygging hennar sé algjörlega háð uppbyggingu borgarlínu en borgarlínan er samofin vinningstillögu í alþjóðlegri sam­keppni um þróun Keldna­lands. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri svaraði því afdráttarlaust til að frestun borgarlínu myndi fresta uppbyggingu Keldnalands. Nokkrir borgarfulltrúar tóku til máls og sögðu að fólk mætti ekki lesa of mikið í orð þingmanna og ráðherra þannig að uppbygging borgarlínu muni frestast um langan tíma.

Yfirborðsgárur í fjölmiðlum

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingar, komst ágætlega að orði í þeirri ef og hefði umræðu sem átti sér stað á fundinum.

„Þessi umræða er oft svolítið skemmtilegt hérna og mér dettur í hug orðatiltækið: Ef og sé og mundi – átján rófur á einum hundi. Það gæti náttúrulega margt gerst einhvern veginn öðruvísi en ég held að það sé engin ástæða til þess að efast um það að borgarlínan fer í gagnið.

Ég held að þetta séu svona yfirborðsgárur sem við höfum séð í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Ég hef engar áhyggjur af því.“

[Innskot blaðamanns: Hjálmar fór ekki alveg með rétt mál en vísan er svohljóðandi: „Efa og sé og efa og mundi – átján rófur á einum hundi“]

Hvort borgarlína frestist um skemmri eða lengri tíma verður að koma í ljós en ef marka má orð borgarstjóra stendur og fellur vinningstillagan um uppbyggingu þess með uppbyggingu borgarlínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert