Er betra fyrir lýðheilsu að engar reglur gildi?

Ólafur telur tvískinnung í áfengislöggjöfinni.
Ólafur telur tvískinnung í áfengislöggjöfinni.

„Löggjöfin gengur út frá því að smásala með áfengi sé ekki til, að netverslun með áfengi sé ekki til og að áfengisauglýsingar séu ekki til. Ég spyr því þá þingmenn og aðra sem lagst hafa gegn breytingum á áfengislöggjöfinni undir merkjum óljósrar lýðheilsustefnu. Er betra fyrir lýðheilsu að starfsemi sé í gangi fyrir allra augum sem engar reglur gilda um eða er betra að setja einhverja skynsamlegar reglur um starfsemina?,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. 

Óvissa ríkir um það hvort íslenskum fyrirtækjum sé heimilt að selja áfengi í gegnum netverslun. Enginn vafi leikur á því að hægt er að panta áfengi frá erlendum netverslunum og hefur það viðgengist árum saman. Óháð því hafa netverslanir á innlendum og erlendum kennitölum selt áfengi hérlendis árum saman án þess að neinar reglur taki á því. Ólafur segir að netsala áfengis hjá Costco stækki gráa svæðið enn meira en verið hefur hingað til. 

Ólafur telur óljóst tal um lýðheilsu hamla skynsamlegri niðurstöðu um …
Ólafur telur óljóst tal um lýðheilsu hamla skynsamlegri niðurstöðu um breytingar á áfengislöggjöfinni. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Fagnar yfirlýsingu dómsmálaráðherra 

Hann segir smásölurisa hafa fylgst náið með þróun málaflokksins. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra lýsti því í samtali við mbl.is í gær að hann liti svo á að netverslun með áfengi væri lögleg. 

„Félag atvinnurekenda hefur unnið að því í lengri tíma að reyna að fá einhver svör frá dómsmálaráðuneytinu. En ráðuneytið hefur ekki treyst sér til að gefa skýr svör. Við höfum fengið loðin svör um að það teldi að til lagabreyting þyrfti til að koma. Nú hefur dómsmálaráðherra hins vegar tekið af skarið og sagt að þetta sé einfaldlega löglegt, rétt eins og netverslun frá útlöndum. Við fögnum þessu skrefi,“ segir Ólafur. 

Smásala, netverslun og áfengisauglýsingar 

Hann bendir á að Félag atvinnurekenda hafi lengi barist fyrir breyttri áfengislöggjöf. Félagið vilji heimila smásölu áfengis og áfengisauglýsingar með skýrum hætti og vilji að reglur verði settar um starfsemina. „Staðreyndin er sú að allt er í gangi. Netverslun með áfengi. Smásala með áfengi t.a.m. í vegasjoppum og í 10-11 í Leifsstöð. Þá fer hún fram í gegnum alls kyns vínklúbba,“ segir Ólafur. 

Vínbúðin hefur einkaleyfi til sölu áfengis samkvæmt áfengislögum.
Vínbúðin hefur einkaleyfi til sölu áfengis samkvæmt áfengislögum. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Eins séu áfengisauglýsingar fyrir augum fólks án þess að stjórnvöld geti nokkuð aðhafst í því. Bæði í gegnum samfélagsmiðla sem og í gegnum alþjóðlega íþróttaviðburði sem sjónvarpað er. 

Kjósendur VG og Framsóknar bruggi heima hjá sér 

Hann segir himinhrópandi tvískinnung í umræðu um þessi mál. Þá sérstaklega með tilliti til þess að Vinstri grænir og Framsóknarflokkur hafi lagst gegn frumvarpi dómsmálaráðherra um reglur með netverslun með áfengi sem lagt var fyrir ríkisstjórn í desember. „Meira að segja frumvarp um heimabrugg fékk ekki framgöngu. Hvað heldur fólk að margir kjósendur Framsóknar og Vinstri grænna bruggi heima hjá sér?,“ spyr Ólafur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert