Ristarbrotinn og úr leik í þrjá mánuði

Eiður Aron Sigurbjörnsson í baráttu við Atla Þór Jónasson framherja …
Eiður Aron Sigurbjörnsson í baráttu við Atla Þór Jónasson framherja HK í leiknum í gær. mbl.is/Óttar Geirsson

Eiður Aron Sigurbjörnsson, varnarmaðurinn reyndi hjá Vestra, er ristarbrotinn og verður ekki með liðinu í Bestu deildinni í fótbolta næstu þrjá mánuðina eða svo.

Vestramenn tilkynntu þetta í dag en Eiður þurfti að fara af velli eftir að brotið var á honum í leik Vestra og HK í Bestu deild karla í Laugardalnum í gær.

Þeir gera ráð fyrir tólf vikna fjarveru, eða framyfir miðjan júlí, en til þess tíma eiga nýliðarnir fyrir höndum tíu leiki í Bestu deildinni auk þess sem þeir mæta KA í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar.

Eiður kom til Vestra frá ÍBV fyrir þetta tímabil og er reyndasti leikmaður liðsins með 206 leiki að baki í efstu deild hér á landi, með ÍBV, Val og Vestra, auk þess sem hann lék um skeið sem atvinnumaður í Svíþjóð, Noregi og Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert