Við erum ekki saddir

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar. mbl.is/Eyþór Árnason

Afturelding komst í kvöld í úrslitaeinvígið gegn FH um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta eftir sigur á Val á Hlíðarenda.

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var gríðarlega ánægður með niðurstöðuna þegar mbl.is tók hann á tal strax eftir leik.

Þetta gerist varla sætara en þetta að vinna svona leik eftir að hafa verið undir megnið af leiknum eða hvað?

„Þetta leit ekki vel út í byrjun því mér fannst við ekki vera mættir. Fyrstu tíu mínúturnar leið mér eins og við værum í leik númer tvö aftur. Munurinn á þessum leik og þeim leik er samt sá að okkur tókst að snúa þessu við og koma okkur í gírinn.

Lykillinn er samt sá að aftur náum við að stjórna hraðanum og komast til baka til að stoppa hraðaupphlaupin þeirra. Það er lykillinn að því að vinna Val. Nú höfum við spilað fimm leiki í vetur við Val og unnið fjóra þeirra,“ sagði Gunnar

Stjarna Aftureldingar í kvöld er Ihor Kopyshynskyi. Ertu sammála því?

„Já, hann var frábær í dag. Lykilmenn voru kannski ekkert að spila sinn allra besta leik en kosturinn er að Ihor og fleiri stigu þá bara upp og það voru allir að leggja í púkkið og breiddin vann þennan leik,“ sagði hann.

Hver var svona helst lykillinn að viðsnúningnum í síðari hálfleik?

„Klárlega breiddin og við fækkuðum tæknifeilum í síðari hálfleik og vorum sterkir í vörninni. Síðan var markvarslan líka mjög góð,“ útskýrði Gunnar.

Björgvin Páll er ykkur ansi erfiður í fyrri hálfleik en síðan finnið þið leiðir fram hjá honum í síðari hálfleik. Ertu með skýringu á því?

„Við komumst í betri færi en við skulum ekki gleyma því að hann er besti markvörður deildarinnar. Hann ver fjögur víti frá okkur en það munar um að við fáum betri færi og svo voru okkar markverðir frábærir líka,“ sagði hann.

Það hlýtur samt að teljast gott að ná að vinna lið þar sem markvörðurinn er með 17 varða bolta, þar af fjögur víti, ekki satt?

„Jú, og Valsmenn eru búnir með tíu daga pásu og þeir ætluðu sér áfram. Þeir eru með alveg frábært lið og ég er ótrúlega ánægður með að komast áfram á móti þessu liði. Ég tel það vera verðskuldað,“ sagði Gunnar.

Næst er það FH í úrslitaeinvígi. Eru einhver líkindi á milli Vals og FH?

„Valur er með Bjögga og FH er með Aron. Þannig að bæði lið eru með frábæra leikmenn. En taflan lýgur ekki. Liðin í fyrsta og öðru sæti eru að fara að mætast.

FH er frábært lið en núna ætla ég að njóta í kvöld og vakna á morgun og finna út hvenær leikurinn við FH er. Við erum ekkert saddir og ekkert hættir. Við mætum klárir í fyrsta leik, sama hvenær hann er,“ sagði hann.

Ef við leyfum okkur að vera barnalegir, væri ekki bara sanngjarnt í þínum huga að FH fékk deildarmeistaratitilinn, Valur bikarmeistaratitilinn og þið fáið Íslandsmeistaratitilinn?

„Jú mér finnst það sanngjarnt en ég er ekki viss um að FH sé sammála því. Ég á von á að þetta verði hörku sería alveg eins og þessi sería var og serían sem FH er að koma út úr.

Kaplakriki verður troðfullur og ég á von á því að það verði uppselt á alla leikina í seríunni og ég hlakka bara til,“ sagði Gunnar að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka