„Vefverslun með áfengi er lögmæt“

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra fagnar því að einkaframtakið stigi inn og …
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra fagnar því að einkaframtakið stigi inn og bjóði áfengi í vefverslunum.

„Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá að vefverslun með áfengi sé lögmæt. Hér hafa verið margar vefverslanir með áfengi um nokkurra ára skeið og þetta hefur gengið vel. Persónulega finnst mér gott að sjá einkaframtakið stíga þarna inn og sú þjónusta er greinilega vel þegin af neytendum,“ segir Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra í tilefni af því að Costco er búið að opna vefverslun með áfengi. 

Hann segir að um sé að ræða sjálfsagða þróun sem sé í takti við almenna verslunarhætti. Hægt sé að panta flestallar vörur og fá þær sendar heim að dyrum. 

Sú mótsagnakennda staða er uppi í íslensku lagaumhverfi um málefnið að hver sem er getur pantað áfengi af erlendum vefverslunum og allir mega flytja inn áfengi til landsins til einkaneyslu. Engu að síður er ÁTVR samkvæmt laganna bókstaf með einokun á sölu áfengis á Íslandi.

Jón lagði fram frumvarp um vefverslun með áfengi í desember. Þar voru tilgreindar reglur um afhendingu, sölutíma, leyfisskilyrði og aldur t.a.m. Það hefur hins vegar strandað hjá VG og Framsókn. 

Frumvarpiðo hefur strandað í ríkisstjórn hjá VG og Framsókn að …
Frumvarpiðo hefur strandað í ríkisstjórn hjá VG og Framsókn að sögn Jóns. mbl.is/Unnur Karen

Risinn eins og fíll í kristalbúð 

„Þetta mál hefur verið fast í ríkisstjórn vegna afstöðu þessara flokka. Svo er það með nokkrum ólíkindum að frumvarp um heimabrugg hefur líka strandað. Ég tel þetta vera fornaldarhugsunarhátt. Þetta hefur ekkert með aukið aðgengi að gera. Á sama tíma er ríkisverslunin að færa út kvíarnar og þingmenn samstarfsflokka okkar í ríkisstjórn að leggja fram frumvarp um að ríkisverslunin sé opin á helgidögum. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd. Að vera með einhver varnaðarorð á sama tíma og risinn er eins og einhver fíll í kristalsbúð,“ segir Jón. 

ÁTVR hefur einokun á sölu áfengis.
ÁTVR hefur einokun á sölu áfengis. mbl.is/Unnur Karen

Hann segir að líkja megi þessu við það þegar bjór var leyfður í sölu á Íslandi árið 1989. Nokkurn tíma tók að koma því í gegnum ríkisstjórn. „En ég held að enginn myndi vilja draga það til baka í dag,“ segir Jón.  

Verslun í krafti ósamræmis 

Þeir sem reka vefverslanir með áfengi hafa áttað sig á því ósamræmi sem fylgir því að hægt sé að panta áfengi úr þúsundum vefverslana erlendis frá og fengið sent heim sð dyrum. Á sama tíma sé það óheimilt hérlendis.

Vekur þetta m.a. upp spurningar um það hvort slíkt ósamræmi standist stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Að Íslendingum sé bannað að bjóða vöru sem erlendur aðili getur boðið upp á.

Í krafti þessaa ósamræmis hafa sprottið upp innlendar vefverslanir þar sem áfengið er þess vegna sent heim að dyrum líkt og erlendum vefverslunum er heimilt að gera. Lögregluyfirvöld og sýslumaður hafa ekki gert athugasemdir við þessar verslanir.

Deildar meiningar hafa verið um aðgengi að áfengi í áratugi …
Deildar meiningar hafa verið um aðgengi að áfengi í áratugi á Íslandi. mbl

Þá ber að nefna að ein undantekning er gerð í lögunum á einokun ÁTVR. Framleiðendum er heimilt að selja áfengi á framleiðslustað. Þannig geta neytendur t.a.m. keypt áfengi í brugghúsi án þess að það sé í trássi við lög.

Menn verði að opna augun 

„Í dag gilda engar sérstakar reglur um afhendingu sölutíma og á leyfum fyrir svona verslun. Því mætti segja að frumvarpið sem ég lagði fram sé frekar til þess fallið að þrengja að svona verslun. Að ramma inn núverandi ástand. Ég tel að það sé eðlilegt. Deilurnar hafa stundum snúið að því að þetta sé ekki fyrir allra augum í verslunum. Enginn er að tala um það og þetta er í fullu samræmi við þróun sem er í gangi á neytendamarkaði. Menn geta reynt að loka augunum fyrir því en einn daginn verða menn að opna þau og horfa framan í veruleikann,“ segir Jón. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert