Reynt að festa fingur á bótafjárhæð

Frá Miðhrauni í apríl. Þar sem hluti byggingarinnar hafði staðið, …
Frá Miðhrauni í apríl. Þar sem hluti byggingarinnar hafði staðið, stóð vart nokkuð eftir nema rjúkandi rúst. mbl.is/RAX

Fyrirtaka fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í þremur málum. Þau snúast um bótakröfu þeirra sem höfðu pláss á leigu í húsnæði Geymslna í Miðhrauni er það brann. Niðurstaða fyrirtökunnar í dag var sú að í næstu viku reyna sækjendur og verjendur að skera úr um fjárhæð tjónsins. Og svo verður málið tekið fyrir aftur.

Takist að finna hver bótafjárhæðin er verður gengið í það mál fljótlega, að kveða á um hvort bótaskyldan sé þá yfir höfuð fyrir hendi. Í framhaldinu, segir Guðni Á. Haraldsson, lögmaður þeirra sem leita hér réttar síns, ættu fyrstu dómarnir í þessum málaferlum að falla í vor.

Taka átti málin fyrir í desember en því var frestað til þess að menn gætu aflað gagna og skilað greinargerðum. Næst verða þessi mál tekin fyrir 4. febrúar. Guðni vonar að þá verði menn búnir að komast að niðurstöðu um fjárhæðir, svo málinu geti undið frekar fram; ekki er útilokað að þá verði alla vega eitt málið sett í aðalmeðferð.

Krafa stefnenda í þessum þremur málum er tekin voru fyrir í dag er samtals upp á um 20 milljónir; 1.300.000 í einu, 11.100.000 í öðru og 7.800.000 í því þriðja. Þetta eru þrjú fyrstu málin, en í það minnsta 44 aðrir leita réttar síns vegna þess sem þeir glötuðu í brunanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert