Stefnir í góðan dag í Hlíðarfjalli

Skíðasvæðið í Skarðsdal.
Skíðasvæðið í Skarðsdal.

Forsvarsmenn skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli segja að það stefni í góðan dag í fjallinu en um tvö þúsund manns voru á skíðum þar í gær. Lokað verður í Bláfjöllum en opið í Skálafelli.

Hlíðarfjall er opið frá 10-16 í dag. Þar er sjö stiga frost og 2 m/sek. Þar eiga menn von á fjölda fólks í dag enda margir í vetrarfríi fyrir norðan.

Skíðasvæðið í Skarðsdal verður opið í dag frá kl 10-16. Þar er sunnangola, frost 4-7 stig og heiðskírt. Færið er troðinn þurr snjór, veður og færi er eins og það gerist best, segir í tilkynningu.

Í Stafdalnum verður skíðasvæðið opið í dag frá 10-16 en þar er smágola og fimm gráðu frost. Aðstæður til skíðaiðkunar eins og þær gerast bestar, þ.e. troðinn nýr snjór. Topplyftan verður opnuð í dag með allri sinni víðáttu bæði troðinni og ótroðinni, segir í tilkynningu. 

Lokað verður í Bláfjöllum í dag en þar er farið að skafa mikið og vegurinn orðinn ófær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert