Mega ekki rífa flakið án leyfis

Rannsóknarskipið Seabed Constructor.
Rannsóknarskipið Seabed Constructor. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Óheimilt er samkvæmt íslenskum lögum að hrófla við flaki þýska kaupskipsins Minden án þess að fá til þess leyfi frá Umhverfisstofnun. Þetta segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri stofnunarinnar, í samtali við mbl.is. Þetta sé alveg ljóst í ljósi laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fréttavefur Ríkisútvarpsins fjallaði um málið í dag.

Morgunblaðið greinir frá því í dag að áhöfn rannsóknarskipsins Seabed Constructor hafi í hyggju að opna skipsflakið eins og sardínudós til þess að reyna að nálgast verðmæti sem þar sé að finna. Tveir starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru um borð í skipinu til eftirlits.

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

Fram kemur í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að þau taki til „hvers konar starfsemi og framkvæmda hér á landi, í lofthelgi, efnahagslögsögu og farkostum sem ferðast undir íslenskum fána,“ en skipið er innan íslensku 200 mílna efnahagslögsögunnar.

Landhelgisgæslan gaf rannsóknarskipinu fyrirmæli um helgina að snúa til hafnar þegar ljóst þótti að skipið væri að sinna einhvers konar rannsóknum á svæðinu þar sem Minden sökk í lok september 1939 þegar síðari heimsstyrjöldin geisaði og varð áhöfnin við því.

Lögreglan segir lögfræðilegan ágreining vera um það hvort Seabed Constructor þurfi leyfi vegna starfsemi sinni en talsmenn þeirra sem eru með skipið á leigu segja að ekki sé verið að stunda neinar rannsóknir og því þurfi ekki leyfi. Undir þetta hefur Bjarni Már Magnússon lagaprófessor tekið.

Hins vegar er spurning hvernig málið snýr við þegar kemur að umhverfisvernd en Kristín Linda segir alveg ljóst að ekki sé heimilt að rífa skipsflakið án leyfis. Ekki liggi fyrir upplýsingar um það hvort um borð sé olía eða önnur efni sem mengað geti umhverfið.

Kaupskipið Porta, systurskip Minden.
Kaupskipið Porta, systurskip Minden. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert