Mikil hætta skapaðist

Maðurinn sem ruddist inn á skrifstofur Rauða kross Íslands í morgun er íranskur hælisleitandi sem hefur verið búsettur hérlendis í nokkur ár. Maðurinn ruddist inn í húsið með tvær flöskur fullar af bensíni og hellti vökvanum yfir sig.

Tilkynning barst um kl. 9:30 í morgun og fór lögregla strax á vettvang. Mikill viðbúnaður var í Efstaleiti þar sem RKÍ er til húsa. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn bættust í hópinn og menn frá sérveit ríkislögreglustjóra, en á þriðja tuga manna tóku þátt í aðgerðunum.

Um almennt útkall var að ræða, en menn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru fyrstir á staðnum. Ekki var um sérsveitarútkall að ræða en þrír menn frá sérsveitinni voru í nágrenninu og mættu á staðinn.

Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri og yfirmaður aðgerðasveitar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, stýrði aðgerðum á vettvangi.

Hótaði að kveikja í sjálfum sér

Hann segir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi verið með tvær bensínflöskur þegar hann ruddist inn í húsið. Hann hellti bensíninu yfir sig og hótaði að kveikja í sér, en maðurinn hélt á tveimur kveikjurum.

Bensín fór á starfsmenn RKÍ þegar það reyndi að fá hann ofan af þessu.

„Það var bensínpollur á gólfinu og það var orðin mikil mettun af bensíni inni,“ segir Arnar Rúnar.

Lögreglan gerði tilraun til að ræða við manninn og fá hann til að hætta við. Samningamaður frá ríkislögreglustjóra fór á vettvang og starfsmaður frá Útlendingastofnun, sem hefur séð um málefni hælisleitandans, auk starfsfólks frá RKÍ.

Hælisleitandinn átti að mæta á fund í Útlendingastofnun í morgun en hann mætti ekki.

„Það varð fljótlega ljóst að það þýddi ekkert að tala við manninn. Þetta var orðin svo mikil hætta, það voru bensíngufur þarna um allt. Ef hann hefði kveikt í þá hefði komið ægilegur blossi,“ segir Arnar Rúnar.

Starfsmenn RKÍ voru enn inni í húsinu þegar lögreglan lét til skarar skríða.

Um hálftíma eftir að tilkynningin barst fór lögreglan inn í húsið. Sprautað var á manninn úr duftslökkvitæki til að koma í veg fyrir að hann næði að kveikja í sér, en hann var þá á annarri hæð hússins. Hann var svo handtekinn í kjölfarið. Aðgerðin heppnaðist vel að sögn Arnars. Engan sakaði.

Farið var með manninn á slysadeild Landspítalans í Fossvogi þar sem hann var þrifinn. Nú gistir hann fangageymslur og bíður maðurinn þess að mál hans verði tekið fyrir. Hann verður yfirheyrður af lögreglu og svo mun Útlendingastofnun fara yfir hans mál.

Hörmuleg örvænting

Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, segir í tilkynningu alvarlegt að slíkir atburðir skuli gerast en þetta hafi farið eins vel og hægt var miðað við aðstæður.

„Það er hörmulegt að örvænting reki fólk til slíkra athafna, en mest um vert er að okkur tókst með þeim viðbúnaði sem hér var að koma manninum til hjálpar án þess að hann skaðaði sjálfan sig eða aðra,“ segir Kristján. „Þetta var leyst á faglegan hátt með aðstoð sérfræðinga.“

Þá segir að Rauði krossinn harmi að hælisleitandi skuli grípa til slíkra örþrifaráða. Slíkt beri vitni örvæntingu mannsins og mikilvægt sé að hann fái nauðsynlega aðstoð í framhaldinu. 

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert