Gleðileg þróun á Suðurnesjum

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Sverrir

Vakin er sérstök athygli á því í nýju áliti fulltrúa Frjálslynda flokksins og VG í fjárlaganefnd um fjárlagafrumvarpið, að íbúum á Suðurnesjum haldi áfram að fjölga þrátt fyrir brottför hersins og atvinnulíf virðist styrkjast jafnt og þétt. Þriðja og síðasta umræða um fjárlög næsta árs hófst á Alþingi undir hádegið.

Í nefndaráliti þeirra Kristins H. Gunnarssonar og Jóns Bjarnasonar segir, að vel hafi gengið að skapa ný störf í stað þeirra sem hurfu með brottför hersins og mun betur gangi að koma húseignum á Keflavíkurflugvelli í ný not en búist hafði verið við. Segjast þingmennirnir fagna þessum góða árangri í atvinnuuppbyggingu til þessa.

Þingmennirnir fjalla einnig í álitinu um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og gera athugasemd við, að ekki hafi verið orðið við beiðni sem fram kom í fjárlaganefnd um að þar yrðu lögð fram og kynnt öll tilboð sem borist hafa í eignir og allir samningar, bæði um sölu eigna og kaup félagsins á þjónustu.

Nefndarmenn fjárlaganefndar fengu að kynna sér kaupsamninga, sem reyndar voru óundirritaðir, með skilyrði um að virða trúnað hvað varðar söluskilmála þar til kaupendur hefðu samþykkt að skilmálarnir yrðu opinberir. Segja þingmennirnir sjálfsagt að virða þann trúnað en segjast telja að þeir, sem annast sölu á eignum ríkissjóðs og þeir sem bjóða í þær verði að undirgangast það að samningar og tilboðin verði gerð opinber. Ríkið geti ekki átt í viðskiptum sem ekki þola dagsins ljós.

Þess sé vænst að sem fyrst verði uppfylltar fram komnar óskir í fjárlaganefnd um umbeðnar upplýsingar. 

Nefndarálit Frjálslynda flokksins og VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert