Skattalækkanir tímasettar í ljósi meginmarkmiða í hagstjórn

mbl.is/KG

Í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er vísað til stefnuyfirlýsingar ríkistjórnarinnar um að stefnt verði að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta hag lágtekjufólks og millitekjufólks. Einnig verði leitað leiða til að lækka frekar skatta á fyrirtæki. Í frumvarpinu segir hins vegar, að skattkerfisbreytingar og aðrar hagstjórnaraðgerðir verði hins vegar tímasettar í ljósi meginmarkmiða ríkisstjórnarinnar í hagstjórn.

Fram kemur að helsta viðmið varðandi tekjuöflun ríkissjóðs sé að tekjuafkoma ríkissjóðs sé í jafnvægi yfir hagsveifluna og stuðli að efnahagslegum stöðugleika á hverjum tíma. Stefnt verði að skattabreytingum og eflingu velferðarkerfisins sem miðist við að auka framleiðslugetu hagkerfisins og velferð landsmanna.

Í greinargerðinni segir, að meginniðurstaða fjárlagafrumvarps og langtímaáætlunar í ríkisfjármálum sé, að stöðugleiki ríki í efnahagslífinu þegar hratt dragi úr umsvifum vegna stóriðjuframkvæmda og samdráttur verði í innlendri eftirspurn. Við þær aðstæður sé dregið úr aðhaldsstigi í ríkisfjármálum árið 2008 sem sé í samræmi við markmið í efahagsstjórn ríkisstjórnarinnar um stöðugleika í efnahagslífinu.

Fjárlagavefur fjármálaráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert