Aukin umferð um Egilsstaðaflugvöll

Flugfélag Íslands býður nú þrjár ferðir milli Reykjavíkur og Egilsstaða á virkum dögum, í stað tveggja áður, en vegna fyrirhugaðra virkjunar- og álversframkvæmda á Austurlandi er félagið reiðubúið að fjölga ferðum enn meir. Að sögn Jóns Karls Ólafssonar, framkvæmdastjóra félagsins, gætu ferðirnar á virkum dögum orðið jafnvel fjórar ef ekki fleiri. Þá má einnig reikna með auknum fraktflutningum og að beint flug til Egilsstaða erlendis frá verði tíðara en verið hefur.

Áhrifa framkvæmdanna er þegar farið að gæta, sem lýsir sér fyrst og fremst í aukinni bjartsýni fólks. Eftirspurn eftir byggingarlóðum er að aukast, verktakar sjá fram á betri tíð og ferðaþjónustuaðilar sömuleiðis. Þannig búa hótelin á Fljótsdalshéraði sig undir aukningu. Endurbætur standa yfir á Gistihúsinu og áform hafa verið upp um að stækka Hótel Hérað á Egilsstöðum um allt að helming.

Í grein fréttararitara Morgunblaðsins á Egilsstöðum í blaðinu í dag koma m.a. fram skiptar skoðanir um það hvar uppbygging vegna framkvæmdanna á Austurlandi verði mest og ekki ólíklegt að aðallega verði keppst um "bestu bitana" milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar. Til þessa hefur einkum verið rætt um áhrif framkvæmda á Fjarðabyggð en í greininni er rætt við ýmsa aðila sem tengjast atvinnulífinu á Héraði.

Í aðalskipulagi A-Héraðs 2002-2017 er sett fram tilgáta um íbúaþróun í sveitarfélaginu fram til ársins 2013, í þá veru að aðflutningur fólks vegna álvers muni stöðva fólksfækkun á Mið-Austurlandi utan A-Héraðs. Þá eru sterkar vísbendingar taldar benda til þess að meginþungi aðflutnings vegna framkvæmdanna verði á Egilsstöðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert