Ráðherra gerð grein fyrir stöðunni v/Norsk Hydro um mánaðamótin

Formaður samráðsnefndar vegna Reyðarálsverkefnisins gerði iðnaðarráðherra grein fyrir að tímasetningar vegna byggingar Reyðaráls væru í uppnámi um mánaðamótin febrúar/mars eftir ákvarðanir Norsk Hydro í þeim efnum í síðustu viku febrúar.

Þórður Friðjónsson, formaður samráðsnefndarinnar, sagði að það væri ekki fyrr en í síðustu viku febrúarmánaðar sem þær ákvarðanir voru teknar innan Norsk Hydro, sem að lokum leiddu til þess að fyrirtækið treysti sér ekki til að standa við tímasetningar varðandi verkefnið. Fyrr en það hefði legið fyrir hefði ekkert verið fast í hendi varðandi breytingar á tímasetningum og áhyggjur um að áætlanir stæðust ekki kæmu alltaf upp öðru hverju í verkefnum eins og þessum og ekki mætti gera of mikið úr slíkum áhyggjum. Þórður sagði að megintímasetning í þessu efni væri síðasta vika febrúarmánaðar, en þá hefðu verið haldnir fundir innan Norsk Hydro, bæði í framkvæmdastjórninni og milli samninganefndarmanna Hydro og Eyvind Reiten, forstjóra fyrirtækisins. Á þessum fundum hefðu verið teknar ákvarðanir af þeirra hálfu um að skoða aðrar leiðir og víkja frá tímasetningum. Í kjölfarið um mánaðamótin hefði hann gert iðnaðarráðherra grein fyrir því að tímasetningarnar væru í uppnámi og næstu vikurnar hefðu verið notaðar til til að athuga hvort einhver flötur væri á að standa við áætlanir þótt tímasetningar breyttust eitthvað. Meðal annars hefði aðalsamningamaður Norsk Hydro komið hingað til lands 8. mars, en síðan hefðu formlegar ákvarðanir verið teknar um málið 19. mars eftir samræður utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra við Reiten. Daginn eftir hefði iðnðaðarráðherra tilkynnt á Alþingi að von væri á yfirlýsingu í þessum efnum og hún hefði komið á endanum 22. mars. Þórður sagði að það væri aukaatriði að hans mati hvenær grunsemdir kynnu að hafa vaknað um að svona gæti farið. Allt frá því gengið hefði verið frá nýjum tímaramma hefðu alltaf öðru hvoru komið upp vangaveltur í þá veru að það yrði erfitt að ná þessum tímasetningum. Það væri ósköp eðlilegt í starfi eins og þessu, en þá settu menn bara aukinn kraft í vinnuna og það réðist síðan hvernig til tækist. Hann bætti því við aðspurður að fyrr en það hefði legið formlega fyrir af hálfu Norsk Hydro að þeir gætu ekki staðið við tímaáætlanir hefði verið alrangt að hans mati að hlaupa upp til handa og fóta þótt einhverjir hefðu velt fyrir sér hugsanlegum frávikum eitthvað fyrr. „Það liggur alveg ljóst fyrir að þessar ákvarðanir eru ekki teknar innan Hydro fyrr en í lokaviku febrúar. Það er þá sem málið í raun og veru kemst í uppnám. Fram að þeim tíma er að mínu viti eðlileg viðbrögð að menn haldi ró sinni og vinni í samræmi við þær áætlanir sem gerðar hafa verið,“ sagði Þórður. Hann sagði að frá því þessi breytta afstaða Hydro lá fyrir og fram til 19. mars hefði verið unnið að því að athuga hvort einhverjir möguleikar væru á að koma til móts við þarfir Norsk Hydro án þess að það raskaði tímaáætluninni að nokkru marki þannig að Landsvirkjun gæti hafið framkvæmdir í sumar, en það hefði því miður ekki tekist. Strax og það hefði legið ljóst fyrir hefðu verið gefnar út ofangreindar yfirlýsingar. Bundinn trúnaði Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls og framkvæmdastjóri Hæfis, sagði að hann hefði upp úr miðjum febrúarmánuði gert sér grein fyrir því að vegna kaupanna á VAW gæti komið til þess að Norsk Hydro treysti sér ekki til að taka ákvörðun 1. september. Þá lægi ekki fyrir nein ákvörðun þar um, þótt hann hefði haft þessa tilfinningu fyrir því að þetta yrði niðurstaðan. Hann væri auk þess bundinn trúnaði gagnvart verkefninu og Norsk Hydro og á þessum tíma hefði verið unnið hörðum höndum að því að finna leiðir til að tryggja framgang verkefnisins og hvort einhverjar leiðir væru til þess að Hydro gæti tekið jákvæða ákvörðun 1. september. Geir sagði að það væri augljóst að hann hefði ekki átt neinn kost á því að ræða sínar efasemdir opinberlega. Það hefði beinlínis verið til þess fallið að skaða verkefnið og þær litlu vonir að hans mati sem hefðu verið á því að leiðir fyndust til að halda því áfram á sama grundvelli. Gagnrýni á hann fyrir það að hafa ekki viðrað þessar efasemdir sínar opinberlega á þessum tíma væru því fráleitar. Það væri mjög algengt í svona verkefnum og viðskiptum að það væri ekki hægt að skýra opinberlega frá gangi mála fyrr en endanleg niðurstaða lægi fyrir. Hann bætti því við að þegar búið hefði verið að þrautreyna hvort Norsk Hydro gæti ekki tekið jákvæða ákvörðun í málinu hefði verið kominn rétti tíminn til að skýra frá stöðu málsins og það hefði verið gert. Mismunandi mat Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sagði að aðalatriðið í þessu máli væri að Norsk Hydro skyldi hafa tekið þessa ákvörðun, sem væri okkur ákaflega mikil vonbrigði. Það væri hins vegar erfitt að meta það nákvæmlega eftir á hvernig hver og einn hefði metið stöðuna á hverjum tíma fyrir sig. Þótt svo virtist sem um um nokkuð misvísandi skilaboð til þjóðarinnar í þessum efnum væri að ræða, þá teldi hún að þar væri á ferðinni að einhverju leyti mismunandi mat eftir samtöl við þá aðila sem væru í sambandi við Ísland út af verkefninu og þar væri hún að tala um aðila frá Norsk Hydro. „En þó virðist vera eins og fulltrúar Hæfis hafi vitað þetta á undan stjórnvöldum og það er svo sem ekkert um það að segja. Að mínu mati hafa þeir ekki nákvæmar skyldur við mig,“ sagði Valgerður. Hún sagði að þegar hún hefði farið að fá þessi skilaboð, misákveðin, um að það væri raunverulegt vandamál þarna á ferðinni, hefði fyrsta hugsun hennar verið sú að það yrði að tala við forstjórann, æðsta ráðamann fyrirtækisins. Hún hefði fyrst spurt eftir því hvort búið væri að taka ákvörðun og svarið við því hefði verið neitandi, enda hefði komið fram í fjölmiðlum frá upplýsingafulltrúa Nork Hydro að það væri ekki búið að taka ákvörðun í þessum efnum. Hún hefði þá gert kröfu til þess að fá að tala við forstjórann um stöðu málsins, því hún hefði viljað fá að heyra það beint frá honum hver staða þess væri og það hefði tekið dálítið langan tíma að fá það samtal. Þegar það hefði átt sér stað hefði ekki farið á milli mála hver staðan væri og þá hefði niðurstaðan verið sú að best væri að reyna að ná einhverri sameiginlegri yfirlýsingu. Hún hefði greint strax frá því í þinginu og þremur dögum seinna hefði yfirlýsingin legið fyrir og hún hefði þá gert Alþingi grein fyrir henni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert