„Hefðir þú verið til í að vera á flautunni?“

Aron Kristófer í bakgrunninum í leiknum í kvöld.
Aron Kristófer í bakgrunninum í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Hann var skrautlegur leikur KA og KR í 5. umferð Bestu deildar karla i dag. Mörg gul spjöld á lofti, eitt rautt og fullt af umdeildum dómum. Liðin urðu að sættast á 1:1 jafntefli eftir að KR hafði misst markvörðinn Guy Smit af velli með rautt spjald á 73. mínútu.

Það eru fimm umferðir búnar í deildinni og breyttar áherslur dómara eru að senda halarófu leikmanna í leikbann í næstu umferðum. Einn þeirra er Aron Kristófer Lárusson, sem venjulega spilar sem vinstri bakvörður hjá KR. Aron er uppalinn hjá Þórsurum á Akureyri og var sjálfsagt spenntur fyrir að berja aðeins á KA-mönnum. Mbl.is fékk kappann í viðtal eftir leik, viðtal sem einkenndist af mikilli hógværð viðmælandans.

„Úr því sem komið var þá verðum við að sættast á þetta jafntefli. Rauða spjaldið setti okkur undir mun meiri pressu og það var lítið að frétta hjá okkur fram á við stóran hluta seinni hálfleiks. Þetta snérist um að verja 1:0 forustu okkar. Það tókst ekki en þetta hefði getað farið verr. Það var skellur að klúðra vítinu í byrjun leiks í stöðunni 1:0 fyrir okkur.

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Við vorum að galopna KA-liðið í byrjun leiks en ég á bara eftir að skoða það hvernig KA brást við, hvort þeir hafi bara lokað á okkur eftir það. Mér fannst það sérstök ákvörðun að gefa Guy gult spjald fyrir að tefja leikinn eftir sex til átta sekúndur frá því að hann setur boltann niður og spjaldið fer á loft. Auðvitað eigum við ekki að leyfa þeim að skora. Líklega er 1:1 ekkert hræðilegt. Þetta er súrt en líka ásættanlegt að sleppa með punkt.“

Nú ert þú uppalin hjá Þór í Þorpinu hér á Akureyri. Þessi leikur hlýtur að hafa kitlað sérstaklega.

„Nei ekkert þannig. Þetta er bara einn leikur í viðbót. Kannski myndi maður gleðjast eitthvað ögn meira í leikslok ef við hefðum unnið og að sama skapi vera enn súrari ef við hefðum tapað.

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Tveir tapleikir ykkar í aðdraganda þessa leiks hljóta að hafa aukið hungrið eftir sigri í dag.

„Það er náttúrulega alltaf markmiðið hjá KR að vinna hvern leik. Það gekk á ýmsu í þessum tapleikjum. Framarar voru bara flottir en við vorum hreinlega klaufar á móti Blikum.“

Það vita það nú flestir að faðir þinn er Lárus Orri Sigurðsson, fyrrum landsliðsmaður og núverandi sparkspekingur. Hann kallaði nú ekki allt ömmu sína og myndi sjálfsagt vilja sjá alla leiki spilaða á grasi ef hægt væri eða jafnvel á möl. Nú er heimavöllur KR á Meistaravöllum með þessu fína grasi en það er langt frá því að vera tilbúið. Ástandið í ár er reyndar ágætt miðað við hvernig völlurinn leit út á sama tíma í fyrra. Hvernig velli myndir þú helst kjósa að spila á?

„Við erum núna sífellt að flýta þessu Íslandsmóti og þá verðum við að spila á gervigrasi. Sléttur grasvöllur er hins vegar það sem mér finnst best að spila á. Kannski mun þessi blandaða týpa slá í gegn en það mun bara koma í ljós.“

KR er með spennandi hóp og nýjan mann í brúnni. Hvernig lýst þér á tímabilið?

„Það verður bara fínt. Það eru margir nýir leikmenn að koma inn og þjálfarinn er líka nýr. Menn eru að aðlagast og liðið að slípast. Þetta lítur bara vel út og ég er spenntur fyrir þessu. Við stefnum bara hátt og gerum okkar besta.“

Nú er næsti leikur ykkar gegn HK á Meistaravöllum.

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Ég verð reyndar ekki með í þeim leik. Dómarinn gaf mér gult spjald í dag fyrir fyrsta brot. Við sækjum hins vegar alla punktana, geri ég ráð fyrir.“

Nú eru allskyns áherslubreytingar í dómgæslunni í ár. Það voru nokkur spjöld í dag sem við hefðum líklega aldrei séð í fyrra.

„Ég vil bara segja að þetta gengur misvel hjá dómurunum. Þeir verða samt bara að standa á sínu og fylgja fyrirmælum. Þeir eru allir að gera sitt besta. Hefðir þú verið til í að vera á flautunni?“ Vel mælt hjá Aroni Kristófer og látum þetta vera lokaorð hans í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert