Fjórir fluttir á sjúkrahús eftir árekstur á Suðurlandsvegi

Frá vettvangi á Suðurlandsbraut í morgun.
Frá vettvangi á Suðurlandsbraut í morgun. mbl.is/Júlíus

Fjórir voru fluttir á sjúkrahús eftir áreksturinn sem varð við afleggjarann að Strönd við Suðurlandsveg á níunda tímanum í morgun. Voru þeir allir í fólksbíl, sem lenti á gámaflutningabíl sem ekið var út á Suðurlandsveg til vinstri. Ökumaður var einn í gámaflutningabílnum og hlaut hann ekki meiðsli. Búið er að opna veginn fyrir umferð, en hann var lokaður frá því slysið varð.

Þoka var í lofti og bleyta á veginum þegar áreksturinn varð. Tilkynning barst til lögreglunnar á Hvolsvelli um klukkan 8:30 og var Suðurlandsvegur lokaður þar til nú, að búið er að opna aðra akreinina. Beið fjöldi bíla á veginum eftir að hann yrði opnaður aftur en nú gengur umferðin greiðlega. Þegar lögregla kom á staðinn í morgun hafði einum tekist að komast út úr fólksbílnum af sjálfsdáðum en hin þrjú voru föst í bílnum hátt í klukkutíma þar til hægt var að fá kranabíl til að lyfta gámabílnum upp. Fyrstir á vettvang voru menn frá Brunavörnum Rangárvallasýslu á Hvolsvelli. Gámabíllinn er óökufær eftir áreksturinn og þurfti að lyfta honum af veginum með kranabílnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert