Einfalda kynleiðréttingarferlið með umdeildu frumvarpi

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP/Sameer Al-Doumy

Sænska þingið mun í dag kjósa um umdeilt frumvarp sem kveður á um að lágmarksaldurinn til að breyta kyni sínu að lögum verði 16 ára í stað 18 ára.

Ef frumvarpið verður samþykkt mun það einnig verða einfaldara fyrir einstaklinga að breyta lagalegu kyni sínu. 

Frumvarpið er mjög umdeilt og hefur sýnt að mikill klofningur er í sænsku samfélagi þegar kemur að aðgengi að kynleiðréttingum.

Kynleiðréttingarferlið auðveldað með frumvarpinu

Frumvarpið felur í sér tvær löggjafir sem myndu koma í stað eldri laga. Önnur löggjöfin kveður á um kynleiðréttingaraðgerðir og hin fjallar um stjórnsýslumeðferð til að breyta lagalegu kyni.

Ef frumvarpið verður samþykkt mun fólk geta breytt kynskráningu sinni við 16 ára aldur. Þeir sem eru undir 18 ára aldri munu þó þurfa samþykki foreldra, lækna og sænska landlæknisembættisins. 

Greining á kynáttunarvanda – upplifun einstaklings frá unga aldri um að hann telji sig hafa fæðst í röngu kyni og óskar að tilheyra hinu kyninu, verður ekki lengur nauðsynleg við breytingu á kynskráningu. 

Kynleiðréttingaraðgerðir munu áfram vera aðgengilegar þeim sem eru eldri en 18 ára en einstaklingar munu ekki lengur þurfa samþykki landlæknisembættisins. Fjarlæging eggjastokka eða eistna yrði þó áfram aðeins leyfð frá 23 ára aldri.

Peter Sidlund Ponkala, forseti rétt­inda­sam­taka sam­kyn­hneigðra í Svíþjóð (RFSL), fagnar frumvarpinu og segir ferlið núna vera langt og að það geti tekið allt að sjö ár að breyta kynskráningu sinni í Svíþjóð. Þá segir hann auðveldara ferli mikilvægt fyrir trans fólk, sem er viðkvæmur hópur. 

Klofningur meðal Svía

Greiningum á kynáttunarvanda hefur fjölgað töluvert í Svíþjóð, þá sérstaklega meðal unglinga á aldrinum 13 til 17 ára sem fæddust í kvenkyns líkama. Slíkum tilfellum hefur fjölgað um 1.500% frá árinu 2008.

Gagnrýnendur frumvarpsins vilja bíða með breytingar á lágmarksaldrinum þar til þessi fjölgun tilfella hefur verið rannsökuð fyllilega. 

Sænsk stjórnvöld ákváðu árið 2022 að banna hormónameðferðir ólögráða barna nema í mjög sjaldgæfum tilfellum og takmörkuðu mjög aðgengi unglinga í kynleiðréttingarferli að brjóstnámi. 

Mikið umburðarlyndi fyrir kynleiðréttingum hefur ríkt í Svíþjóð en undanfarið hefur borið á auknum deilum í málaflokknum meðal stjórnmálamanna, fræðifólks, heilbrigðisstarfsfólks og almennings.

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem birtar voru í síðustu viku eru um 60% Svía á móti frumvarpinu á meðan 22% styðja það. 

Ríkisstjórnin ekki sammála

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur varið frumvarpið og segir það yfirvegað og ábyrgt. Hann hefur þó viðurkennt að hann hefði viljað halda lágmarksaldrinum við 18 ára en lét undan sterkum öflum í flokki sínum.

Ríkisstjórn hans hefur verið klofin í málinu en bæði Kristilegir demókratar og Svíþjóðardemókratar eru á móti frumvarpinu. 

Kristersson mun því þurfa að sækjast eftir stuðningi vinstri stjórnarandstöðuflokka til að koma frumvarpinu í gegnum þingið. 

Verði frumvarpið samþykkt munu nýju lögin taka gildi 1. júlí 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert