Sá grunaði er góðkunningi lögreglu

Lögregla vinnur enn að rannsókn málsins en sá grunaði var …
Lögregla vinnur enn að rannsókn málsins en sá grunaði var handtekinn á vettvangi. AFP/Remko de Waal

Maðurinn sem grunaður er um að hafa tekið fjóra í gíslatöku á kaffihúsi í miðbæ borgarinnar Ede í Hollandi í morgun er góðkunningi lögreglu og hefur áður verið dæmdur fyrir hótanir. Lögreglan hefur til rannsóknar hvað bjó að baki gíslatökunnar. 

Lögreglunni í Hollandi barst útkall um hugsanlega gíslatöku á Kaffi Patticoat í miðbæ Ede klukkan 5:15 á staðartíma í morgun. Fjölmiðlar á svæðinu greindu frá því að „ruglaður“ maður hafi ruðst inn á staðinn þar sem starfsfólk var í óða önn að taka til eftir lokun staðarins. 

Það var síðan á níunda tímanum, á staðartíma, í morgun sem lögreglan á svæðinu biðlaði til almennings um að forðast miðborg Ede í vegna atviksins. Í kjölfarið voru 150 heimili á svæðinu rýmd og fólk beðið um að halda sig innandyra. 

Blaðamannafundur um gíslatökuna var haldinn klukkan 13.30 á staðartíma eða …
Blaðamannafundur um gíslatökuna var haldinn klukkan 13.30 á staðartíma eða um hálftíma eftir að tilkynning barst um að síðasta gíslinum hefði verið sleppt. AFP/Remko de Waal

Samningaviðræður hófust samstundis 

Fljótlega bárust upplýsingar frá lögreglunni á svæðinu um að engar vísbendingar væru um að um hryðjuverkaárás væri að ræða, en lögreglumenn voru komnir á vettvang innan nokkurra mínútna eftir að útkallið barst og hófu samstundis samningaviðræður við manninn. 

mbl.is greindi frá því í dag að ekki lægi fyrir hversu margir væru að verki, en fjölmiðlar á svæðinu höfðu greint frá því að þeir væru fjórir eða fimm. Nú er ljóst að einungis var um einn mann að ræða. 

Maðurinn vopnaður hnífum 

Skömmu fyrir hádegi á staðartíma voru þrír gíslar látnir lausir og rúmum klukkutíma síðar staðfesti lögreglan að fjórði og síðasti gíslinn hefði verið látinn laus. Samhliða þeirri tilkynningu bárust upplýsingar um að sá grunaði hefði verið handtekinn. 

Að sögn Marthyne Kunst saksóknara var maðurinn vopnaður nokkrum hnífum sem hann er sagður hafa sýnt gíslunum. Þá var hann einnig með meðferðis svartan bakpoka sem lögregla hefur til rannsókna í ljósi þess að maðurinn hótaði að nota sprengiefni. 

Lögreglan í Hollandi staðfesti þó síðar að ekkert sprengiefni hafi verið að finna í bakpokanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert