Rannsókn lögreglu í Ede stendur enn yfir

Gíslatökunni er lokið en rannsókn lögreglu stendur enn yfir.
Gíslatökunni er lokið en rannsókn lögreglu stendur enn yfir. AFP/Remko de Waal

Aðgerðir lögreglunnar í Hollandi vegna gíslatöku sem hófst á kaffihúsi í borginni Ede í morgun standa enn yfir þrátt fyrir að gíslatökunni sé lokið. 

Frá þessu greinir lögreglan í Hollandi á miðlinum X, en þar segir að rannsókn á vettvangi muni taka smá tíma. 

Betur fór en á horfðist

Aðgerðir viðbragðsaðila á svæðinu vegna gíslatökunnar hófust á níuna tímanum í morgun, á staðartíma. Aðgerðirnar standa enn yfir en öllum gíslum hafði verið sleppt á fyrsta tímanum á staðartíma.

Betur fór en á horfðist því gíslatökunni lauk án blóðsúthellinga þar sem allir gíslar voru látnir lausir auk þess sem lögreglan handtók hinn grunaða. 

Lögreglan í Hollandi greindi fljótlega frá því að engar vísbendingar væru um að um hryðjuverk væri að ræða en í undanfara þeirrar tilkynningar höfðu 150 heimili í miðbæ Ede verið rýmd vegna ástandsins. 

Einn verið handtekinn grunaður um að standa að baki gíslatökunni

Nokkrir fjölmiðlar á svæðinu greindu frá því að „ruglaður“ maður hafi ráðist inn á kaffihúsið snemma í morgun og haft uppi hótanir auk þess að halda fjórum í gíslingu. 

Fyrr í morgun greindi fréttaveita AFP frá því að fjölmiðlar á svæðinu hefðu greint frá því að fjórir eða fimm manns væru að verki. Lögreglan á svæðinu hef enn ekki staðfest hvor einn eða fleiri hafi staðið að baki gíslatökunnar. 

Gíslarnir voru alls fjórir og var þremur þeirra sleppt á tólfta tímanum á staðartíma. Rúmum klukkutíma síðar höfðu allir gíslarnir verið látnir lausir og tilkynning barst frá lögreglu um að einn hafi verið handtekinn, grunaður um að hafa staðið að baki gíslatökunni. 

Á myndum frá fjölmiðlum á svæðinu má sjá mann krjúpa á jörðinni með hendur fyrir aftan bak á meðan lögreglumenn setja á hann handjárn. 

Hinn grunaði var látinn krjúpa á jörðinni á meðan hann …
Hinn grunaði var látinn krjúpa á jörðinni á meðan hann var handtekinn fyrir utan staðinn þar sem gíslatakan átti sér stað. AFP/ Remko de Waal

Gíslarnir eiga rétt á friðhelgi einkalífs

René Ver­hulst, borg­ar­stjóri Ede, sendi frá sér yfirlýsingu á meðan á gíslatökunni stóð þar sem hann sagði ástandið hræðilegt fyrir marga. 

„Þetta er hræðilegt ástand fyr­ir allt þetta fólk. Hug­ur minn er hjá þeim og ást­vin­um þeirra. Ég vona að nú fari að leys­ast úr ástand­inu hratt og ör­ugg­lega.“

Þá biðlaði hann til fólks um að dreifa ekki þeim fjölda myndbanda sem gengur um netið frá ástandinu. 

„Gísl­arn­ir sem nú eru laus­ir eiga rétt á friði og friðhelgi einka­lífs. Lög­regl­an vill líka geta sinnt starfi sínu sem skyldi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert