Borgarstjóri Ede sendir frá sér yfirlýsingu

Þremur gíslum var sleppt á tólfta tímanum á staðartíma.
Þremur gíslum var sleppt á tólfta tímanum á staðartíma. AFP

„Gíslataka er nú yfirstandandi í miðborg Ede. Þremur gíslum hefur verið sleppt en ástandið er enn viðvarandi. Þetta er hræðilegt ástand fyrir allt þetta fólk. Hugur minn er hjá þeim og ástvinum þeirra. Ég vona að nú fari að leysast úr ástandinu hratt og örugglega.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu René Verhulst, borgarstjóra Ede, sem birtist á heimasíðu borgarinnar í kjölfar gíslatöku í miðborginni sem hófst á níunda tímanum í morgun á staðartíma. 

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að nú séu í dreifingu mikið af myndböndum frá staðnum og biðlar Verhulst til fólks að deila þeim ekki. 

„Gíslarnir sem nú eru lausir eiga rétt á friði og friðhelgi einkalífs. Lögreglan vill líka geta sinnt starfi sínu sem skyldi.“

Mikill viðbúnaður er á svæðinu.
Mikill viðbúnaður er á svæðinu. AFP

Ástandið hefur ekki einungis áhrif á gíslana 

Þá tekur Verhulst fram að ástandið hafi ekki einungis áhrif á gíslana heldur jafnframt þá sem þurftu að yfirgefa heimili sín vegna þessa, en 150 heimili í miðbænum voru rýmd í kjölfar gíslatökunnar.

Ráðhúsið í Ede hefur verið opnað fyrir þá sem þurfa dvalarstað á meðan ástandið varir og er allt kapp lagt á að leysa málið á öruggan og friðsælan hátt. Um leið og frekari upplýsingar liggja fyrir verður þeim deilt með almenningi, segir loks í yfirlýsingunni.

Vegna ástandsins ganga engar lestir milli Ede-Wageningen og Barneveld-Zuid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert