45 látnir eftir rútuslys: Aðeins átta ára barn lifði af

Gatnamót í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Mynd úr safni.
Gatnamót í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Mynd úr safni. AFP

Rúta með 46 manns innanborðs steyptist fram af brú og ofan í gjá í Suður-Afríku í dag. Eldur kviknaði í rútunni eftir að hún féll til jarðar.

Allir um borð létu lífið, fyrir utan átta ára gamalt barn sem flutt hefur verið á sjúkrahús með alvarlega áverka.

Var á leið frá Botsvana

Að sögn samgönguráðuneytis landsins var rútan á leið frá nágrannaríkinu Botsvana til Moria í norðurhluta Suður-Afríku.

„Talið er að bílstjórinn hafi misst stjórnina og skollið á vegriði brúarinnar sem olli því að rútan fór út yfir brúna og féll til jarðar, þar sem kviknaði í henni,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins.

Sum líkin eru svo brennd að ekki er með góðu móti hægt að bera kennsl á þau. Enn önnur eru föst í flakinu eða á víð og dreif um slysstaðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert