Læknastofum strax lokað í nokkrum ríkjum

Mótmælt hefur verið víða eftir að dómurinn féll í gær.
Mótmælt hefur verið víða eftir að dómurinn féll í gær. AFP/John Rudoff

Læknastofum þar sem þungunarrof hefur verið framkvæmt hefur strax verið lokað í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, en að minnsta kosti þrettán ríki voru tilbúin með löggjöf sem bannar þungunarrof, eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna afnam í gær réttinn til þungunarrofs í landinu. Með dómnum var nærri hálfrar aldar dómafordæmi Roe gegn Wade snúið við. BBC greinir frá.

Gera má ráð fyrir að um lög um þungunarrof verði hert í um helmingi ríkja Bandaríkjanna á næstunni. En líkt og áður sagði voru þrettán ríki þegar tilbúin með löggjöf sem tekur gildi innan þrjátíu daga. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að „sorgleg mistök“ hafi verið gerð.

Átakanlegt að hringja í sjúklinga

Mótmælt hefur verið víða um Bandaríkin vegna málsins, en andstæðingar þungunarrofs hafa hins vegar fangað. Lögreglan í Phoenix í Arisona notaði táragas á mótmælendur sem krefjast þess að konur fái að ráða yfir sínum líkama, þegar þeir börðu á dyr þinghússins. Þá hafa mótmælendur í Los Angelels teppt umferð á hraðbrautum. Gera má ráð fyrir að mótmælin haldi áfram í dag.

Læknastofunni Little Rock í Arkansas var lokað strax og dómurinn féll í gær. Dyrunum að biðstofunni var lokað og starfsfólkið hringdi í allar þær konur sem áttu tíma og tjáði þeim tímarnir hefðu verið felldir niður.

„Eins vel og við töldum okkur hafa búið okkur undir slæmar fréttar, þá voru þær mikið áfall þegar þær komu. Að þurfa að hringja í þessa sjúklinga og láta þá vita að dómafordæmi Roe gegn Wade hefði verið snúið við, var átakanlegt,“ sagði hjúkrunarfræðingurinn Ashli Hunt í samtali við BBC.

AFP/Jason Connolly

Hrópað að sjúklingum

Sjálfboðaliðar fylgdu sjúklingum út af læknastofunni og skýldu þeim í gegnum mannfjöldann sem safnast hafði saman fyrir utan. „Ég hélt að hélt raunverulega að þetta land léti sig fólk varða. Að það léti sig konur varða,“ sagði Karen, ein þeirra sem fylgdi sjúklingunum.

Andstæðingar þungunarrofs fögnuðu fyrir utan og hrópuðu að sjúklingum sem voru að leggja bílum sínum við læknastofuna og höfðu enn ekki heyrt af dómnum. „Við fylgjumst með þér,“ var hrópað. „Ég legg til að þið snúið við og yfirgefið þennan stað. Þetta er staður synda og siðferðislega rangra ákvarðana, þetta er vondur staður,“ var einnig kallað.

AFP/Elijah Nouvelage

Hefur áhrif á aðgengi 36 milljóna að þungunarrofi 

Í New Orelans í Luisoana, þar sem einnig var tilbúin löggjöf sem bannar þungunarrof, var Women‘s Health Care læknastofunni lokað strax. Einni af þremur læknastofum í ríkinu þar sem þungunarrof var framkvæmt. Starfsfólkið var sent heim.

Fyrir utan læknastöðuna var sjálfboðaliðinn Linda Kocher stödd, tilbúin að fylgja sjúklingum og skýla þeim fyrir mannfjöldanum. Hún benti á að efnaðar konur gætu enn gengist undir þungunarrof í öðrum ríkjum, en þær efnaminni myndu leita á svartan markað eftir ólöglegum aðgerðum.

Gera má ráð fyrir að dómurinn komi til með að hafa áhrif á aðgengi 36 milljóna kvenna að öruggu og löglegu þungunarrofi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert