200.000 mótmæla réttarhöldunum

Um 200.000 manns tóku þátt í mótmælagöngu vegna réttarhalda yfir …
Um 200.000 manns tóku þátt í mótmælagöngu vegna réttarhalda yfir leiðtogum sjálfstæðissinna í Barcelona í dag. AFP

Um 200.000 manns tóku þátt í mótmælum gegn réttarhöldum yfir leiðtogum sjálfstæðissinna í Barcelona á Spáni í dag. Segja mótmælendur réttarhöldin vera algjöran farsa, en réttað er yfir mönnunum vegna aðildar þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað Katalóníu frá Spáni.

„Sjálfsákvörðun er ekki glæpur,“ stóð á skilti sem Quim Torra forseti héraðsstjórnar Katalóníu bar ásamt hópi annarra mótmælenda.

AFP-fréttaveitan hefur eftir lögreglu að um 200.000 manns hafi tekið þátt í mótmælunum.  Sjálfir segja skipuleggjendur um 500.000  mótmælendur hafa tekið þátt í göngunni.

Þátttakendur veifuðu bláum, rauðum og gulum fána Katalóníu og báru skilti með kröfum á borð við „Frelsi fyrir pólitíska fanga“.

Réttarhöld hófust fyrir hæstarétti í Madrid á þriðjudag í máli 12 katalónskra aðgerðasinna, vegna þáttar þeirra í í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað Katalóníu frá Spáni árið 2017. Verði þeir fundnir sekir geta þeir átt yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi vegna ákæru um að hvetja til uppreisnar og fyrir að lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu um skamma stund.

Mótmælendur halda hér á loft mynd aðskilnaðarsinnans Oriol Junqueras sem …
Mótmælendur halda hér á loft mynd aðskilnaðarsinnans Oriol Junqueras sem setið hefur í varðhaldi. AFP

Sjálfstæðisyfirlýsingin skapaði eina dýpstu kreppu sem verið hefur í spænskum stjórnmálum frá því að í stjórnartíð einræðisherrans Francisco Francow.

Sjálfstæðissinnar og lögfræðingar ákærendanna segja réttað yfir þeim vegna hugmynda þeirra og fyrir stjórnmálaandóf.

„Það sem er að gerast núna er virkilega hryggilegt. Þetta eru pólitísk réttarhöld,“ sagði Jesus Rodriguez einn mótmælendanna og kveður þá vera dæmda fyrir eitthvað sem ekki sé glæpur.

„Þeir vilja bara læsa þá inni, en vita samt að það er ekki glæpur að kjósa. Þeir eru að búa til glæp sem átti sér aldrei stað.“

Saksóknarar halda því engu að síður fram að aðskilnaðarsinnarnir séu fyrir rétti vegna gjörða sinna, ekki hugsana.

AFP segir marga Spánverja vera hlynnta réttarhöldunum, þar sem þeir séu hneykslaðir yfir sjálfstæðiskosningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert