Leigubílstjórar í London kæra Uber

Leigubílsstjórar í London mótmæla appinu Uber.
Leigubílsstjórar í London mótmæla appinu Uber. AFP

Leigubílaþjónustan Uber á yfir höfði sér 250 milljón punda, sem samsvarar 43 milljörðum íslenskra króna, málsókn sem rúmlega 11 þúsund leigubílstjórar í London standa að. 

Lögfræðistofan Mishcon de Reya hefur lagt fram hópmálsókn fyrir hönd leigubílstjórana sem gera kröfu á að hver leigubílstjóri fái 25 þúsund pund hver eða því sem nemur rúmum 4,4 milljónum króna.

Uber segir fullyrðingarnar út í hött

Leigubílstjórarnir halda því fram að til að fá leyfi til að starfa í borginni hafi akstursrisinn vísvitandi blekkt samgönguyfirvöld borgarinnar varðandi það hvernig smáforrit fyrirtækisins virkar. 

Í samtali við breska ríkisútvarpið BBC sagði talsmaður Uber fullyrðingar leigubílstjóranna út í hött. 

„Uber starfar löglega í London, er með fullt leyfi frá samgönguyfirvöldum og er stolt af því að þjóna milljónum farþega og ökumanna víðs vegar um höfuðborgina,“ bætti hann við. 

Samgönguyfirvöld hafa ekki tjáð sig um málið.

Vilja að fyrirtækið sé dregið til ábyrgðar

Hópmálsóknin byggir á starfsemi Uber í London frá maí 2012 til mars 2018 og halda leigubílstjórarnir því meðal annars fram að Uber hafi visvítandi stolið viðskiptavinum af starfandi leigubílstjórum.

„Uber virðist trúa því að það sé hafið yfir lög og leigubílar víða um London hafa orðið fyrir tekjutapi vegna þess,“ segir Garry White, sem hefur verið leigubílstjóri í 36 ár.

„Það er kominn tími til að fyrirtækið sé dregið til ábyrgðar.

Í gegnum árin hefur Uber staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum í London en samgönguyfirvöld þar neituðu að endurnýja leyfi fyrirtækisins árið 2017 vegna at­huga­semda við ör­ygg­is­mál fyr­ir­tæk­is­ins.

Nýverið samþykktu forsvarsmenn Uber í Ástralíu að greiða leigubílstjórum 272 milljónir dala í svipuðu máli. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert