Geymdi kynfæri í frystinum

Hnífur sem lögregla telur víst að Norðmaðurinn hafi notað við …
Hnífur sem lögregla telur víst að Norðmaðurinn hafi notað við aðgerðir sínar í kjallaranum í London. Ljósmynd/Lögreglan í London

Sakadómurinn Central Criminal Court í London hefur fundið Norðmann sekan í máli sem vakið hefur óhug – ekki síst meðal nágranna hans í hinu kyrrláta hverfi Haringey í norðurhluta borgarinnar. Úrskurður um refsingu verður kveðinn upp innan skamms.

Er manninum, sem er frá Drammen, suður af norsku höfuðborginni Ósló, gefið að sök að hafa fjarlægt eistu og getnaðarlimi fimm manna í kjallaraíbúð sinni árabilið 2016 til 2022 en af þeirri iðju mun hann hafa haft sem nemur rúmum fjörutíu milljónum íslenskra króna í tekjur þar til hann var handtekinn í desember 2021 en síðan hefur hann setið inni.

Tók ákærði myndskeið af framkvæmd limlestinganna og birti þau á vefsíðunni „The Eunuch Maker“ sem útleggja mætti á íslensku sem „Geldingaframleiðandinn“ en sex aðrir sæta ákæru í sama máli og tilheyrðu ákærðu allir menningarkima fólks sem er áhugasamt um að vera án kynfæra eða „nullos“ eins og slíkir vísa til sín.

Fjöldi sjúkrabíla

Í janúar hlutu þrír menn dóm fyrir að hafa fjarlægt getnaðarlim ákærða, aðra geirvörtu hans og svo mikið af öðrum fæti hans að fjarlægja þurfti fótinn í aflimunaraðgerð.

Vísa breskir fjölmiðlar í viðtal við ákærða frá árinu 2022, eftir handtöku hans, þar sem hann greindi frá því að hann hefði framkvæmt geldingaraðgerðir á 58 manns og geymdi kynfæri þeirra í alkóhóli í frysti sínum.

Kvaðst hann hafa framkvæt aðgerðirnar fagmannlega en nágrannar mannsins hafa greint fjölmiðlum frá því að þeir hefðu orðið þess varir að sjúkrabílar hefðu komið að heimili ákærða í fjölda tilfella. Þá hefði stórt svart tjald í bakgarði hans vakið athygli.

„Einn daginn voru margir lögreglu- og sjúkrabílar fyrir utan íbúðina. Sögusagnir um manndráp sveimuðu um hverfið en nokkrum vikum síðar fengum við að vita hið sanna,“ segir David, einn nágrannanna, við breska ríkisútvarpið BBC.

Justin kveðst aldrei hafa heyrt um annað eins. „Við héldum að þeir hefðu fundið hálfa tylft líkamsleifa niðurgrafnar í kjallaranum eða faldar í veggnum eða eitthvað ámóta,“ segir hann við BBC.

Gríðarlegt magn skelfilegs efnis

Hjúkrunarfræðingur nokkur hefur játað að hafa stolið deyfilyfjum frá sjúkrahúsi í bresku höfuðborginni auk þess að hafa fjarlægt geirvörtu Norðmannsins að hluta árið 2019.

Annar þeirra þriggja, sem dæmdir voru í janúar, játaði við rekstur þess máls að hafa fjarlægt getnaðarlim Norðmannsins í febrúar 2017 gegn greiðslu sem nam tæpum 100.000 íslenskum krónum.

„Rannsókn málsins hefur tekið tímann sinn og verið ákaflega krefjandi vegna þess hve flókið málið er,“ sagði Amanda Greig, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni London, í yfirlýsingu eftir dómsuppkvaðningu. „Mitt fólk hefur setið frammi fyrir gríðarlegu magni af skelfilegu efni til þess að upplýsa hver fórnarlömbin og brotamennirnir eru,“ sagði hún enn fremur.

Hvetur Greig fólk sem hefur vitneskju eða reynslu af gjörðum áhugafólks um stórfelldar misþyrmingar á kynfærum til að hafa samband við lögreglu, þeir sem nú hafi hlotið dóm séu aðeins hluti stærri hóps sem teygi sig víða um Bretlandseyjar og til fleiri landa.

NRK

BBC (umfjöllun í janúar)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert