Bandaríkjamenn og byssurnar þeirra

Öldungadeildarþingmennirnir Dianne Feinstein og Richard Blumenthal benda á árásarriffil með …
Öldungadeildarþingmennirnir Dianne Feinstein og Richard Blumenthal benda á árásarriffil með búnaði sem gerir það að verkum að riffillinn skýtur hraðar. AFP

Samband Bandaríkjamanna við skotvopn er eins gamalt og flókið og landið sjálft. Mikið hefur verið fjallað um byssueign þeirra eftir skotárásina mannskæðu í Las Vegas þar sem 58 manns voru drepnir.

Bandaríkin urðu til upp úr blóðugri byltingu og hræðileg borgarastyrjöld setti mark sitt á þjóðina ásamt meðferð hennar á ættbálkum indíána, auk þess sem sögur af hetjum villta vestursins eru mörgum hjartfólgnar.

„Ég held að við séum ekki eina þjóðin í heiminum sem elskar byssur en það er ljóst að Bandaríkjamenn eru heillaðir af byssum og þeir elska þær,“ sagði Adam Winkler, höfundur bókarinnar Gunfight: The Battle Over the Right to Bear Arms in America.

„Ég held að það stafi að hluta til af þeirri staðreynd að við erum þjóð sem upphefjum stofnun Bandaríkjanna þar sem vopnaðir byltingarsinnar ákváðu að berjast gegn ráðríkum stjórnvöldum,“ sagði Winkler, sem er prófessor í lögum við Kaliforníuháskóla.

„Sjálfsvitund okkar sem þjóðar tengist einnig mikið villta vestrinu og landnáminu í óbyggðunum þar sem byssumenning var svo sannarlega til staðar.“

Tengist byltingunni 

„Byssan hefur meira og minna verið miðpunkturinn í þjóðargoðsögninni,“ sagði A.J. Somerset. Bókin hans Arms: The Culture and Credo of the Gun fjallar um byssueign í Bandaríkjunum.

„Riffillinn er í forgrunni þegar kemur að goðsögninni sem tengist bandarísku byltingunni,“ sagði Somerset, sem er sjálfur byssueigandi.

Það var þó ekki fyrr en þó nokkrum áratugum seinna eftir byltinguna 1775 til 1783 sem byssan varð virkilega að þjóðartákni, bætti hann við.

Búnaðurinn sem er settur á árásarriffla svo þeir geti skotið …
Búnaðurinn sem er settur á árásarriffla svo þeir geti skotið hraðar. AFP

300 milljónir byssa í Bandaríkjunum

„Um miðja nítjándu öldina varð skyndilega mikil nýsköpun þegar kemur að byssum og til varð Colt-skammbyssan og hleðsluriffillinn,“ sagði hann og bætti við að í framhaldinu hafi rifflarnir orðið sífellt fullkomnari og nefnir Winchester-riffilinn sem dæmi.

„Þessi bylting varðandi tækni skotvopna varð til á sama tíma og Bandaríkjamenn juku umsvif sín vestur á bóginn. Það er á þessum tíma sem þjóðin byrjar að búa til goðsögn úr sambandi sínu við byssuna.“

Rúmlega 300 milljónir byssa eru til í Bandaríkjunum, sem er meira en ein á hvern Bandaríkjamann. Skotvopn koma við sögu í um 30 þúsund dauðsföllum á ári í landinu og tæplega tveir þriðju hlutar þeirra eru sjálfsvíg.

Um fjórir af hverjum tíu Bandaríkjamönnum búa á heimili þar sem byssa er til staðar, samkvæmt könnun sem var gerð í júní af Pew-rannsóknarsetrinu. Alls sögðust 67% byssueigenda eiga skotvopnin í verndarskyni.

Frá minningarathöfn um eitt fórnarlamba árásarinnar í Las Vegas.
Frá minningarathöfn um eitt fórnarlamba árásarinnar í Las Vegas. AFP

Grundvallarréttindi

Margir líta á byssueign sem grundvallarréttindi en þau eru rituð í bandarísku stjórnarskrána þar sem kveðið er á um rétt Bandaríkjamanna til að eiga byssu.

David Courtwright, prófessor í sagnfræði við háskólann í Norður-Flórída, segir að fyrir bandarísku landnemana hafi byssan verið verkfæri. Courtwright er höfundur bókarinnar Violent Land: Single Men and Social Disorder from the Frontier to the Inner City.

„Ef þú varst kúreki að reka nautgripi áfram dróstu stundum upp byssuna og skaust á skröltorm,“ sagði hann. „Þaå var sjaldgæft ef það voru ekki einhvers konar skotvopn til á heimilum á þessum tíma og sumt fólk telur að þessi arfleið eigi enn við í dag.“

Brotnar rúður á 32. hæð Mandalay Bay-hótelsins þar sem Paddock …
Brotnar rúður á 32. hæð Mandalay Bay-hótelsins þar sem Paddock hóf skothríðina. AFP

Aukin glæpatíðni hafði áhrif 

Vestrar í Hollywood og sjónvarpsþættir hafa vafalítið átt hlut í því að sýna byssumenningu kúreka í rómantísku ljósi. Courtwright og aðrir telja samt að ótti við aukna glæpatíðni í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar eigi stærri þátt í að útskýra byssueignina í dag.

„Það er erfitt að ímynda sé núna hversu málefni glæpa og réttlætis voru mikið í umræðunni á áttunda áratugnum,“ bætti prófessorinn Winkler við.

„New York var á barmi gjaldþrots, staðir eins og Washington DC voru í niðurníðslu og glæpir voru tíðir.“

Að sögn Winkler áttu Samtök byssueigenda í Bandaríkjunum sinn þátt í því að selja Bandaríkjamönnum þá hugmynd að þeir þyrftu á byssu að halda í verndarskyni. Það rímaði vel við þá ímynd sem margir Bandaríkjamenn hafa af sjálfum sér. „Þetta er það sem einstaklingur sem stólar á sjálfan sig gerir,“ sagði hann.

„Hann verndar sjálfan sig, fjölskylduna sína og lætur engan segja sér fyrir verkum. Þessi hugmynd náði miklu flugi og hreyfingar hliðhollar byssueign urðu áhrifamiklar í bandarískum stjórnmálum.“

Fórnarlambanna minnst í Las Vegas.
Fórnarlambanna minnst í Las Vegas. AFP

Tákn um frelsi 

Byssueign og réttindi tengd byssum eru einmitt eitt heitasta umræðuefnið Bandaríkjunum í dag, sérstaklega eftir fjöldamorðið í Las Vegas, og skiptist fólk gjarnan í tvo flokka hvað þetta varðar.

44% repúblikana í skoðanakönnun Pew sögðust eiga byssu, miðað við aðeins 20% demókrata.

Byssueign hefur orðið „mjög öflugt tákn sem sýnir í hvaða flokki þú ert,“ sagði Courtwright. „Þetta snýst um sjálfsvitund, ekki bara að vernda sjálfan þig fyrir vondu körlunum.“

„Byssurnar eru tákn um frelsi,“ bætti Somerset við. „Þær tala sterkt til sjálfsvitundar fólks og hvernig það lítur á sig sem frelsis-elskandi og ábyrga Bandaríkjamenn. Sem slíkir eru þeir langt frá því að vilja láta þá táknmynd af hendi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert