Spiluðu Get lucky fyrir Trump og Macron

Frönsk herlúðrasveit fór ótroðnar slóðir í gær þegar hún flutti lokalag sitt í göngu á Bastilludeginum. Gangan var hluti af hersýningu á Ódáinsvöllum (Champs-Elysees) þar sem Emmanuel Macron, forseti Frakklands og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, voru meðal gesta.

Lék lúðrasveitin lagið Get lucky sem var eitt vinsælasta lag ársins 2013, en það var franska raftónlistarsveitin Daft Punk sem flutti lagið upphaflega ásamt söngvaranum Pharrell Williams.

Á myndbandi sem hefur vakið mikla athygli á netinu má sjá þegar sveitin byrjar síðasta lagið, en það byrjar rólega áður en bætt er í taktinn og í ljós kemur hvert lagið er. 

Macron er greinilega skemmt og brosir hann breitt, en ekki er ljóst hvort Trump hafi þekkt til lagsins.

Sjá má myndbandið í heild sinni hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert