Grikkir æfir út í AGS

Komið er að nýjum þætti í viðræðum AGS og Grikkja …
Komið er að nýjum þætti í viðræðum AGS og Grikkja um skuldir. AFP

Grísk stjórnvöld krefjast skýringa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á upplýsingum sem WikiLeaks hefur birt og benda til að starfsmenn sjóðsins hafi á fundi talað um að beita Grikki þrýstingi til að ljúka við samninga um skuldamál ríkisins. 

Forsætisráðherra Grikkja, Alexis Tsipras, segist ætla að skrifa framkvæmdastjóra sjóðsins, Christine Lagarde, vegna málsins. WikiLeaks hefur birt eftirrit af símafundi þar sem starfsmenn AGS segja að Grikkir muni ekki þokast áfram í viðræðunum nema að verða beittir þrýstingi. Því verði að búa til „viðburð“, til að nota sem þrýsting á þá. Ekki er tekið fram hver sá viðburður eigi að vera, en eftirrit af samtalinu var birt á vef WikiLeaks í gær. 

Í gögnum WikiLeaks má einnig sjá að starfsmenn AGS voru áhyggjufullir vegna þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi í sumar um aðildina að Evrópusambandinu. Telja þeir að það geti einnig tafið samningaviðræður við Grikki um skuldamálin um mánuð. 

Grísk stjórnvöld krefjast þess að vita hvaða viðburð er átt við í samtalinu sem nota átti sem þrýsting. 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi frá yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann muni ekki tjá sig um gagnaleka eða „fréttir um meintar samræður starfsmanna“.

Sjóðurinn segist hafa sagt ítarlega frá því opinberlega hvað hann telji nauðsynlegt til að samningar um næstu skref í skuldamálum Grikkja gangi eftir. 

Samtalið, sem WikiLeaks hefur birt handrit að, er milli Iva Petrova og Delia Velculescu, sem hefur leitt AGS í viðræðum við Grikki, og Poul Thomsen, sem stjórnar Evrópudeild sjóðsins.

„Ég er sammála um að við þurfum einhvern viðburð, en ég veit bara ekki hver hann á að vera,“ segir Velculescu, á einum stað í samtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert