Stúlkan hafði glímt við átröskun

Frá Noregi.
Frá Noregi. norden.org

Heimildir norska fjölmiðilsins VG herma að unglingsstúlkan sem fannst látin í sumarhúsi í Noregi á gamlárskvöld hafi glímt við átröskun í langan tíma. Var hún mjög grönn og greinilega vannærð þegar hún lést. Stúlkan var fjórum sinnum lögð inn á sjúkrahús á síðasta ári vegna veikinda sinna.

Líkt og áður hefur komið fram hafði móðir stúlkunnar samband við neyðarlínuna á gamlárskvöld. Þyrla var send að sumarhúsinu en var stúlkan úrskurðuð látin á staðnum. Móðir stúlkunnar hefur verið ákærð fyrir alvarlega vanrækslu sem leiddi til dauða stúlkunnar.

Frétt mbl.is: Lögregla leitaði að mæðgunum

Stúlkan bjó ásamt móður sinni í Bærum í Noregi en í lok september fluttu mæðgurnar í sumarhús í Valdres þar sem stúlkan lést. Stúlkan gekk í skóla í Bærum og fékk skólinn skilaboð um að hún yrði skráð í annan skóla í sveitarfélaginu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu skilaði stúlkan sér þó ekki í annan skóla.

VG ræddi við skólastjóra skólans sem stúlkan gekk í í Bærum og segist hún muna vel eftir henni. „Hún var bara hér í nokkrar vikur. Ég held að hún hafi haft það gott. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað,“ sagði Gretha Storevik í samtali við VG.

Faðir stúlkunnar býr ekki í Noregi og hefur hann ekki verið í sambandi við mæðgurnar. Móðirin dvelur sem stendur á geðdeild og hefur ekki verið hægt að yfirheyra hana vegna veikinda hennar. Búið er að greina henni frá ákærunni og er talið að hún hafi skilið stöðu málsins.

Bráðabirgðakrufningarskýrsla verður kynnt á blaðamannafundi í dag.

Frétt mbl.is: Grunuð um að hafa banað dóttur sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert