Grunuð um að hafa banað dóttur sinni

Valdres er í suður Noregi.
Valdres er í suður Noregi. Google Maps

Þrettán ára gömul stúlka fannst látin í norska héraðinu Valdres á gamlárskvöld en móðir stúlkunnar er í haldi lögreglu, grunuð um að hafa banað henni. Svo virðist sem stúlkan hafi verið vanrækt og ekki mætt lengi í skóla.

Lögreglu var tilkynnt um dauða stúlkunnar á gamlárskvöld og varð strax ljóst að dauða stúlkunnar hafi borið að með saknæmum hætti. Móðir stúlkunnar sem er á fimmtugsaldri var ákærð á nýársdag en saksóknarar telja að stúlkan hafi verið alvarlega vanrækt og að það hafi leitt til dauða hennar. 

Samkvæmt frétt Aftenposten hefur móðir stúlkunnar ekki enn verið yfirheyrð en hún er á sjúkrahúsi vegna einhverskonar heilsufarsbrests.

Lögregla hefur ekki veitt upplýsingar um hvað það var sem leiddi til dauða stúlkunnar en sagðist í tilkynningu hafa ákveðna hugmynd um hvað hafi gerst.

Að sögn lögreglu bjuggu mæðgurnar tvær saman í Valdres en ekki er vitað hversu lengi. Stúlkan hafði ekki mætt lengi í skóla, hvorki þar né annarsstaðar. Lögfræðingurinn Julie Dalsveen hjá lögreglunni í Vestoppland staðfesti að mæðgurnar væru báðar norskar og af norskum uppruna. Ekki liggur fyrir hvar þær bjuggu áður en þær fluttu til Valdres.

Að sögn Dalsveen hefur ekki enn verið haft samband við barnaverndarnefnd vegna málsins. Það hefur þó fengist staðfest að lögregla hafi vitað af mæðgunum áður en stúlkan lést en lögregla í Valdres fékk ábendingu frá barnavernd 26. nóvember þar sem beðið var um aðstoð í því að rannsaka mál stúlkunnar. Var lögregla beðin um að kanna heimili stúlkunnar og athuga hvort að hún byggi þar. Að sögn Dalsveen er það sama hús og stúlkan fannst látin í á gamlársdag. Enginn var í húsinu þegar lögreglu bar þar að í nóvember. 

Ættingjar stúlkunnar hafa verið látnir vita af dauða hennar en lögregla telur ekki að faðir stúlkunnar hafi verið í einhverju sambandi við hana. Lögregla hefur því ekki haft samband við hann beint. Þá verður hugsanlega rætt við ömmu og afa stúlkunnar að sögn Dalsveen.

Móður stúlkunnar hefur verið útvegaður lögfræðingurinn Havard Fremstad og í samtali við Aftenposten sagðist hann eiga eftir að ræða við konuna. „Að mati lögreglu er það ekki það besta í stöðunni að yfirheyra hana enn sem komið er. Heilsa konunnar gengur fyrir eins og staðan er nú,“ sagði Fremstad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert