Þrír settu heimsmet

Júlían J. K. Jóhannsson setti Evrópumet í réttstöðulyftu í dag.
Júlían J. K. Jóhannsson setti Evrópumet í réttstöðulyftu í dag. Sportmyndir.is

Frábær árangur náðist á kraftlyftingamóti WOW Reykjavik International Games í Laugardalshöllinni í dag. Þrír keppendur settu heimsmet á mótinu og tveir Evrópumet.

Kimberly Walford frá Bandaríkjunum bætti eigið met í réttstöðulyftu í -71 kg flokki þegar hún lyfti 243 kg. Joy Nnamani frá Bretlandi setti einnig heimsmet í réttstöðulyftu, en hún er í -57 kg flokki og lyfti 190,5 kg. Jennifer Thompson frá Bandaríkjunum, sem er í -72 kg flokki, setti bæði heimsmet í stakri bekkpressu og bekkpressuþríþraut, en hún lyfti 125 kg, 140 kg og 144 kg.

Tveir Íslendingar settu Evrópumet á mótinu. Júlían J. K. Jóhannsson setti Evrópumet í réttstöðulyftu í +120 kg flokki þegar hann lyfti 365 kg og Sóley Jónsdóttir setti Evrópumet stúlkna í +84 kg flokki í hnébeygju þegar hún lyfti 170 kg.

Keppt var í stigakeppni með svokölluðum Wilks-stigum sem er ákveðin formúla sem byggir á líkamsþyngd keppenda og heildarþyngd sem lyft er. Stigameistarar urðu Kimberly Walford frá Bandaríkjunum og Sami Nieminen frá Finnlandi en eftirfarandi unnu til verðlauna:

Karlar

  1. Sami Nieminen, Finnland
  2. Júlían J. K. Jóhannsson, Ísland
  3. Viktor Samúelsson, Ísland

Konur

  1. Kimberly Walford, Bandaríkin
  2. Jennifer Thompson, Bandaríkin
  3. Joy Nnamani, Bretlandi

Sjá einnig: Heimsmet í Höllinni (myndskeið)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert