Yngsti þjálfarinn rekinn

​Will Still á hliðarlínunni sem þjálfari Reims.
​Will Still á hliðarlínunni sem þjálfari Reims. AFP/Pascal Guyot

Ensk-belgíski fótboltaþjálfarinn, Will Still, var í gær rekinn úr starfi sem þjálfari Reims í Frakklandi. Still var yngsti aðalþjálfari í fimm bestu deildum Evrópu þegar hann var ráðinn, aðeins þrítugur að aldri.

Framgangur Will Still var hraður en einungis 24 ára gamall tók hann við liði Lierse í næst efstu deild Belgíu. Still var aðstoðarþjálfari liðsins en tók tímabundið við stjórnartaumunum eftir brottrekstur aðalþjálfarans.

Still fékk sama tækifæri, undir sömu kringumstæðum, hjá Beerschot í sömu deild fjórum árum síðar. Það sama gerðist síðan hjá efstudeildar liði Reims í Frakklandi árið 2022.

Reims var sektað um 25 þúsund evrur fyrir hvern leik sem Still stýrði liðinu þar sem hann var ekki með þjálfaraleyfin sem franska deildin gerir kröfu en undir stjórn Still tapaði liðið ekki í nítján deildarleikjum í röð, þar á meðal tveimur gegn risunum Paris Saint-Germain.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert