Már lauk keppni í flugsundinu

Már Gunnarsson í 100 m flugsundinu í morgun.
Már Gunnarsson í 100 m flugsundinu í morgun. Ljósmynd/ÍF

Már Gunnarsson tók rétt í þessu þátt í undanrásunum í 100 metra flugsundi, fjórðu og síðustu grein sinni á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó.

Már kom til leiks með ellefta besta tímann af þrettán keppendum í greininni í flokki S11, blindra, en hann varð fjórði á EM í vor þar sem hann setti Íslandsmet, 1:11,11 mínúta, ásamt því að setja met í leiðinni í 50 metra baksundi, 32,33 sekúndur.

Hann synti á 1:14,86 mínútu, varð sjötti af sjö keppendum í sínum riðli og komst ekki áfram í úrslitin. Niðurstaðan hjá honum varð ellefta sætið.

Már varð fimmti í aðalgrein sinni, 100 metra baksundinu, áttundi í 200 metra fjórsundi og þrettándi í 50 metra skriðsundi.

Már Gunnarsson kemur í mark í 100 metra flugsundinu þar …
Már Gunnarsson kemur í mark í 100 metra flugsundinu þar sem Kristín Guðmundsdóttir bankar á hann til að gefa til kynna að hann sé að koma að bakkanum. Ljósmynd/ÍF

Keiichi Kimura frá Japan synti á bestum tíma í undanrásunum, 1:02,25 mínútu, og landi hans Uchu Tomita kom næstur á 1:03.32. Meistarinn úr fjórsundinu, Rogier Dorsman frá Hollandi, varð þriðji á 1:05,64 mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka