Stóra-Bretland úr leik eftir frábæra endurkomu Ástralíu

Ástralir fagna marki í morgun.
Ástralir fagna marki í morgun. AFP

Ástralía er komið áfram í undanúrslitin í knattspyrnu kvenna eftir magnaðan 4:3-endurkomusigur gegn Stóra-Bretlandi í framlengdum leik á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Ástralar leiddu í leikhléi eftir að Alanna Kennedy stökk kvenna hæst og skoraði með góðum skalla eftir hornspyrnu Steph Catley á 35. mínútu, 1:0.

Ellen White mátti ekki minni manneskja vera og skoraði sömuleiðis með glæsilegum þrumuskalla í bláhornið á 57. mínútu eftir flotta fyrirgjöf Lauren Hemp, 1:1.

Skömmu síðar, á 66. mínútu, var White aftur á ferðinni. Hún vann þá skalla innan teigs, boltinn fór af varnarmanni Ástralíu og féll aftur fyrir fætur White sem kláraði af öryggi, 1:2.

Undir lok leiksins, á 89. mínútu, jafnaði Sam Kerr hins vegar metin. Boltinn datt þá fyrir hana í vítateignum og markahrókurinn átti ekki í neinum vandræðum með að koma boltanum í netið af stuttu færi, 2:2.

Því þurfti að grípa til framlengingar.

Á 101. mínútu í framlengingunni fékk Stóra-Bretland gullið tækifæri til þess að ná forystunni á ný. Þá féll Nikita Parris við í teignum við litla snertingu og vítaspyrna dæmd. Caroline Weir steig á vítapunktinn en Teagan Micah í marki Ástrala gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.

Það reyndist Bretum dýrkeypt því strax í næstu sókn tók Ástralía forystuna. Mary Fowler þrumaði þá að marki fyrir utan teig, boltinn stefndi í nærhornið en fór af Lucy Bronze í vörn Breta og þaðan beint upp í samskeyti fjærhornsins, 3:2.

Umsvifalsut á fyrstu mínútu síðari hálfleiks framlengarinnar, 106. mínútu, skoraði Kerr svo sitt annað mark og virtist vera að gera endanlega út um leikinn. Hún fékk þá flotta fyrirgjöf frá vinstri kanti, hafði betur í skallaeinvígi við Steph Houghton og náði frábærum skalla í slána og inn, 4:2.

Bretar gáfust hins vegar ekki upp og White fullkomnaði þrennuna á 115. mínútu. Hún fékk þá fyrirgjöf frá Fran Kirby sem hún náði að skalla yfir Micah og í netið, 4:3.

Mörkin urðu að endingu ekki fleiri en sjö og Ástralía er þar með komin áfram í undanúrslitin, þar sem liðið mætir sigurvegaranum úr einvígi Svíþjóðar og Japans, þar sem Svíar leiða 3:1 þegar þetta er ritað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert