„Það fór ekkert ofan í“

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur.
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Við gerðum ekki nóg hérna í kvöld svo þær minnka muninn. Nú þurfum við bara að gíra okkur upp fyrir miðvikudaginn,“ sagði Sverri Þór Sverrisson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur, við mbl.is eftir tap fyrir Snæfelli, 68:60, í þriðja einvígisleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Stykkishólmi í kvöld.

„Leikhlutarnir skiptust svolítið á milli. Við áttum slakan annan hluta og þær þriðja, en svo voru þær bara sterkari í fjórða leikhluta. Það mátti ekki mikið muna, nokkur skot til eða frá hefðu getað komið okkur yfir,“ sagði Sverrir.

Keflavík hefði með sigri tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn og sjálfur bikarinn var tilbúinn á hliðarlínunni. Hrökk liðið eitthvað í baklás við það?

„Nei, það held ég ekki. Auðvitað vildum við það [lyfta bikarnum], en við erum að spila við lið sem er svipað á styrkleika og við og voru bara aðeins sterkari í kvöld. En það þýðir ekki að dvelja við það, við þurfum bara að fara yfir þennan leik og vera klár fyrir næsta,“ sagði Sverrir.

Keflavík komst í 2:0 í einvíginu, en hvað var það í kvöld sem ekki gekk eins eftir og í fyrstu tveimur leikjunum?

„Við kláruðum skotin okkar ekki nógu vel. Við lentum undir í öðrum leikhluta og þá fór ekkert ofan í. Alveg sama hvort það var stutt skot, frítt skot fyrir utan eða sótt á körfuna. Það fór ekkert ofan í,“ sagði Sverrir.

Keflavík er 2:1 yfir í einvíginu og fær aðra tilraun til þess að tryggja sér titilinn á heimavelli á miðvikudaginn. Hann á von á því að Snæfell tvíeflist við þennan sigur í kvöld.

„Þær koma brjálaðar, enda enn í þeirri stöðu að það er ekkert hvað ef. Við eigum samt líka að vera að hugsa þannig, þó að það hafi ekki dugað í kvöld. Við viljum klára þetta og þurfum til þess að spila betur í næsta leik,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert