FIFA vill halda HM á þriggja ára fresti

Gianni Infantino hefur áður reynt að stytta bilið á milli …
Gianni Infantino hefur áður reynt að stytta bilið á milli heimsmeistaramóta. AFP/Franck Fife

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, vill stytta bilið á milli heimsmeistaramóta karla og halda þau á þriggja ára fresti í stað fjögurra.

Daily Mail skýrir frá þessu í dag og segir að þetta sé baráttumál hjá Gianni Infantino, forseta FIFA. Sambandið  vildi halda HM á tveggja ára fresti og lagði fram tillögur þess efnis en sú hugmynd var skotin niður af bæði UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, og CONMEBOL, Knattspyrnusambandi Suður-Ameríku.

Óvenju stutt er á milli móta frá 2022 til 2026 þar sem mótinu í ár lauk í desember en það næsta sem haldið er í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó fer fram að sumri til árið 2026. Því munu þrjú og hálft ár líða á milli mótanna.

Þá mun FIFA vera hlynnt því að skoða betur að halda heimsmeistaramótið aftur að vetrarlagi, miðað við norðurhvel jarðar, vegna góðrar reynslu af tímasetningu mótsins sem var að ljúka í Katar.

Ljóst er að breytingin myndi í fyrsta lagi koma til framkvæmda eftir HM 2030 þar sem þegar er búið að skipuleggja alþjóðlegt dagatal fótboltans fram að þeirri keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert