Sendur heim vegna ósættis?

Ben White yfirgaf herbúðir enska liðsins nokkuð óvænt fyrr í …
Ben White yfirgaf herbúðir enska liðsins nokkuð óvænt fyrr í þessum mánuði. AFP/Paul Ellis

Ben White, varnarmaður Arsenal, yfirgaf óvænt herbúðir enska landsliðsins í knattspyrnu fyrr í þessum mánuði en hann var valinn í lokahóp enska liðsins fyrir heimsmeistaramótið í Katar sem nú stendur yfir.

Í yfirlýsingu sem enska knattspyrnusambandið sendi frá sér kom meðal annars fram að White, sem er 25 ára gamall, hafi yfirgefið herbúðir liðsins af persónulegum ástæðum.

Enskir miðlar á borð við Sportsmail og The Mirror greina hins vegar frá því í dag að White hafi lent upp á kant við aðstoðarþjálfara liðsins, Steve Holland.

Rifrildið á að hafa átt sér stað fyrir framan allan leikmannahópinn en White hafði víst ekki unnið heimavinnuna sína fyrir liðsfund enska liðsins fyrir leikinn mikilvæga gegn Bandaríkjunum í riðlakeppninni og var Holland ósáttur með það.

Þá hafa enskir fjölmiðlar einnig greint frá því að White hafi ekki fundið sig vel innan leikmannahópsins og átt í erfiðleikum með samskipti við liðsfélaga sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert