Erfið ákvörðun að skipta um lið

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í leik með landsliðinu.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í leik með landsliðinu. Ljósmynd/Jon Forberg

„Þetta var mjög erfið ákvörðun sem tók langan tíma að taka en ég vildi færa mig í stærra umhverfi og fá stærra hlutverk inni á vellinum, bæði varnar- og sóknarlega,” sagði landsliðskonan í handbolta, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir.

Jóhanna gengur til liðs við Kristianstad frá Skara eftir tímabilið en bæði lið eru í Svíþjóð.

„Vantaði líka meira líf utan handboltans, Skara er lítill bær og ekki mikið um að velja. Nú er ég að fara í stærri bæ þar sem ég get farið í skóla og það er styttra fyrir vini og fjölskyldu að koma í heimsókn. Annars leið mér mjög vel innan liðsins og eins og ég segi þá var þetta erfið ákvörðun,“ sagði Jóhanna í samtali við mbl.is.

Jóhanna hefur verið í landsliðshópnum í síðustu verkefnum en ekki fengið mikið af mínútum.

„Vonandi næ ég að vaxa sem leikmaður og þetta sé rétt skref fyrir mig sem mun skila mínútum inn í landsliðið. Það hefur verið erfitt að koma inn í landsliðsverkefni og fá lítið að spila en það er heiður að vera valin og maður notað það til að styrkja sig“

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir eftir leik með íslenska landsliðinu gegn Færeyjum.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir eftir leik með íslenska landsliðinu gegn Færeyjum. mbl.is/Óttar Geirsson

Jóhanna fór út árið 2022 en leikmenn sem spila hérlendis, í næstefstu deild hafa fengið fleiri mínútur en hún í landsliðsverkefnum svo það er ekki endilega mikil hvatning að spila úti

„Það hefur ekki verið mikil hvatning þegar við erum tvær að gera góða hluti í útlöndum og ein er ekki einu sinni í hóp og hin fær lítið að spila.

Mér finnst þetta samt rétt skref sem leikmaður því þú bætir þig sem leikmaður að spila í betri deild og að æfa með betri leikmönnum,“ sagði Jóhanna en Aldís Ásta Heimisdóttir er einnig í Skara.

Jóhanna hefur verið í Svíþjóð frá 2022 og valdi frekar að vera úti heldur en að spila á Íslandi.

„Þau höfðu samband við mig og áhuga á að fá mig. Mér líkaði við umhverfið og staðsetninguna. Liðið er líka með sæti í Evrópukeppni og ætla að taka þátt. Svo er gaman að þetta sé mikill Íslendingabær, bæði er Betra Rut Harðardóttir þarna og stelpur í fótboltaliðinu sem er skemmtilegt.

Það kitlar alltaf að koma heim en á sama tíma vill maður vera úti, það er skemmtilegt að spila handbolta hérna og það er það sem heldur manni hérna,“ sagði Jóhanna.

Jóhanna Margrét og Lilja Ágústsdóttir á góðri stundu.
Jóhanna Margrét og Lilja Ágústsdóttir á góðri stundu. Ljósmynd/Jon Forberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka