Man að Hreiðar Levý lék með derhúfu

Hreiðar Levý Guðmundsson lék með derhúfu í Eistlandi.
Hreiðar Levý Guðmundsson lék með derhúfu í Eistlandi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Eistlandi heima og að heiman í umspili um sæti á HM í Króatíu, Danmörku og Noregi í byrjun næsta árs á næstu dögum. Fyrri leikurinn verður spilaður í Laugardalshöll 8. maí og sá seinni í Tallinn þremur dögum síðar.

Ísland er töluvert hærra skrifað en Eistland og mun sigurstranglegra liðið í einvíginu.

„Við verðum að spila eins og menn, vera einbeittir og nálgast verkefnið af krafti og auðmýkt. Við viljum spila þessa leiki eins og alvöru úrslitaleiki og fá troðfulla höll.

Á pappírunum erum við með betra lið og við eigum að geta sett kröfur á að komast í gegnum Eista til að komast á stórmót. Annað væri vonbrigði,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari, í samtali við mbl.is.

„Það er kominn nýr þjálfari hjá þeim, þjálfari sem var aðstoðarþjálfari. Því fylgir alltaf einhverjar áherslubreytingar. Þeir voru í 3-2-1 vörn á móti Úkraínu og það verður að koma í ljós hvað þeir gera á móti okkur. Ég er búinn að horfa á fullt af leikjum með þeim og Tékkarnir voru í veseni með þá.“

Ísland var með Eistlandi í riðli í undankeppni EM 2010. Snorri man vel eftir ákveðnu atriði í útileiknum, þrátt fyrir að hann hafi ekki spilað sjálfur.

„Ég man mest eftir því að Hreiðar Levý var með derhúfu, því það var sól og vesen. Annars man ég ekki eftir þeim leik, þar sem ég var ekki með. Ég horfði á þetta í sjónvarpinu,“ sagði Snorri Steinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert